Yndislegt en erfitt (myndskeið)

Aron Einar Gunnarsson, landsliðsfyrirliði karla í knattspyrnu, varð faðir í fyrsta sinn í gærmorgun þegar hann og unnusta hans eignuðust dreng. Aron var spurður út í þetta á fréttamannafundinum í Astana í morgun og hvernig tilfinning það væri að vera orðinn faðir en vera í annarri heimsálfu þegar frumburðurinn fæddist.

„Það var okkar sameiginlega ákvörðun að ég færi og spilaði leikinn. Þetta er gífurlega þýðingarmikill leikur fyrir okkur varðandi áframhaldið í keppninni. Það er yndisleg tilfinning að vera orðinn faðir en jafnframt erfitt að vera hérna á meðan. Ég hefði svo sannarlega viljað vera til staðar.

En svona er þetta bara, við breytum engu um það héðan af, en ég vildi svo sannarlega vera hjá þeim núna,“ sagði Aron.

Um leikinn við Kasakstan og dvölina þar sagði fyrirliðinn: „Við komum hingað snemma vegna tímamismunarins og gervigrassins og þetta var erfitt í byrjun, að laga sig að aðstæðum. En þetta er búið að vera fínt allt saman og við erum jákvæðir og klárir í þetta.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert