Erum við ekki gervigraskynslóðin?

Emil Hallfreðsson og Ragnar Sigurðsson fyrir æfingu Íslands í Astana …
Emil Hallfreðsson og Ragnar Sigurðsson fyrir æfingu Íslands í Astana Arena í gær. mbl.is/Víðir Sigurðsson

Emil Hallfreðsson, miðjumaður Hellas Verona á Ítalíu, kveðst ekki finna fyrir neinu vanmati í íslenska hópnum fyrir leikinn gegn Kasakstan í undankeppni EM í knattspyrnu í dag, enda þótt andstæðingarnir séu með eitt stig en Ísland níu fyrir viðureign þjóðanna sem hefst klukkan 15 að íslenskum tíma. Þá verður klukkan 21 að kvöldi í höfuðborginni stórbrotnu Astana, austur í miðri Asíu.

„Nei, ég finn ekki fyrir neinu vanmati," svaraði Emil að bragði þegar mbl.is settist niður með honum á hóteli landsliðsins í Astana í gær og spurði hvort eitthvað slíkt væri til staðar hjá íslenska liðinu.

„Enda væri það ekki eðlilegt eftir að við töpuðum fyrir Tékkum í nóvember. Sá leikur kippti okkur aðeins niður á jörðina og við áttuðum okkur á því að ef við værum ekki í standi gætum við auðveldlega tapað fyrir öllum í þessum sterka riðli. Ég held að menn hafi lært mikið af Tékkaleiknum, það er búið að funda mikið í vikunni hérna í Astana og fara yfir málið - skoða hversvegna við töpuðum leiknum. Ég held að menn hafi lært mikið af því, en það kemur reyndar í ljós í leiknum sjálfum hvort við höfum lært eða ekki.

Okkar hvatning að komast til Frakklands

En ég býst við því að menn hafi dregið sinn lærdóm af þessu og séu klárir í slaginn. Okkar hvatning er allavega sú að komast í lokakeppnina í Frakklandi og við erum með þann draum í huga. Ef við ætlum hinsvegar að þykjast eiga einhvern séns á því, þá eru eiginlega þrjú stig úr þessum leik nokkurs konar skylda. Með fullri virðingu fyrir Kasakstan sem er mjög erfiður andstæðingur," sagði Emil og hnykkti betur á því:

„Við megum ekki gleyma því að við verðum alltaf að sýna öðrum virðingu. Ef við förum aðeins smávegis að ímynda okkur að við séum of góðir, þá værum við því miður komnir í ruglið," sagði miðjumaðurinn reyndi sem er í hópi elstu manna landsliðsins, þrítugur að aldri, og spilar væntanlega sinn 47. landsleik í Astana í dag.

Þegar mbl.is spurði hann hinnar klassísku spurningar um aðstæðurnar í Astana, yfirbyggða völlinn og gervigrasið, svaraði Hafnfirðingurinn: „Þetta er aðeins öðruvísi fyrir líkamann en þjálfararnir hafa haldið álaginu í lágmarki á æfingunum hérna. Þeir hafa ekki gert of mikið, en heldur ekki of lítið, og það hefur verið gott jafnvægi í þessu hjá þeim, þannig að allt stemmi saman og verði klárt þegar flautað verður til leiks.

Gervigrasið mun ekki skilja liðin að

En, erum við ekki gervigraskynslóðin? Ég byrjaði aðeins á mölinni í Hafnarfirði en ólst upp á gervigrasi eftir það og var alltaf að spila á svoleiðis völlum. Það á ekki að vera nokkur afsökun að spila á slíku undirlagi. Það eru kannski tíu menn í liði Kasakstan sem spila í hverri viku á þessum velli en ég veit ekki hvort það verði þeim sérstaklega í hag. En þetta er bara gervigras, við höfum allir spilað oft á slíkum völlum og það mun ekki skilja liðin að í þessum leik. Þessi leikur mun snúast um allt annað en hvort völlurinn sé með gervigrasi eða náttúrulegu grasi. Hann mun snúast um hvort við verðum tilbúnir, hvort við verðum með hausinn í lagi. Ef svo er, eigum við séns," sagði Emil ómyrkur í máli.

Það er sama hver er spurður í þessum hópi, það færist alltaf bros yfir andlitið á þeim þegar þeir eru spurðir um hópinn og hvernig sé að koma saman og hittast fyrir landsleiki. Emil var engin undantekning frá því.

„Þetta er alltaf jafn gaman, það eru svo flottir strákar í þessum hópi og það er alltaf skemmtilegt þegar við komum saman fyrir leikina. Sérstaklega um þessar mundir þegar svona "vinnings-fílingur" er í gangi. Þetta er öðruvísi en fyrir nokkrum árum þegar ekki var sama sjálfstraust og sigurandi í kringum leikina, og þessvegna er þetta svo sérstaklega gaman núna."

Kemur með punkta sem við höfum ekki pælt í

Emil er með elstu mönnum í landsliðinu en færðist aðeins neðar þann lista á ný þegar Eiður Smári Guðjohnsen bættist í hópinn fyrir leikinn í Astana. Emil fagnar að sjálfsögðu endurkomu hans og brosti breitt þegar það bar á góma.

„Eiður er alltaf flottur. Hann hefur komið inná æfingarnar með meiri kraft, og ekki síður inná liðsfundina þar sem hann hefur komið með ýmsa punkta sem við hinir höfum ekki pælt í. En Eiður hefur í raun ekki verið lengi í burtu, og það er eins og hann hafi alltaf verið með okkur. Eiður er bara aðalmaðurinn, það er málið, og það er frábært að fá hann aftur í hópinn," sagði Emil.

Lokaæfing íslenska liðsins fyrir leikinn í dag var um hádegið í gær og Emil sagði að allir hefðu komist vel frá henni en það hefur verið eftir því tekið að allir hafa verið með á öllum æfingum, sem er engan veginn sjálfsagt.

„Æfingin var bara til þess að menn gætu stillt sig rétt af og gert sig klára fyrir leikinn. Þetta var rólegt og skynsamlegt og ég vona bara innilega að allir í hópnum séu virkilega tilbúnir í slaginn," sagði Emil.

Hentar mér betur að vera hægra megin

Hann hefur líklega átt sitt besta tímabil með Hellas Verona í vetur og þar er hann í stóru hlutverki á miðjunni. Undanfarnar vikur hefur Emil komið meira við sögu í sókn liðsins en oft áður og lagt upp nokkur mörk með glæsilegum sendingum. Hann hefur hinsvegar verið í hlutverki kantmanns í landsliðinu í fyrstu leikjum undankeppninnar.

„Já, ég er alltaf á miðjunni hjá Verona, sem er aðeins öðruvísi. Í þessari keppni hef ég svo verið á hægri kantinum með landsliðinu og það hefur hentað mér betur en að vera vinstra megin því ég hef fengið með því meiri tækifæri til að koma inn á völlinn og ógna þar. Ég er nokkuð ánægður með gang mála í þessum fjórum leikjum í keppninni. Reyndar var Tékkaleikurinn ekki góður en þá vorum við bara allir undir getu.

Annars vonast ég til að geta haldið þessu áfram og gert mitt fyrir liðið, og lagt eitthvað að mörkum til þess að leikurinn vinnist. Það er það sem skiptir öllu máli og að allir séu með sama markmið. Engin "egó" séu í gangi. Nú hugsar maður fyrst og fremst um Frakkland - það yrði algjör draumur ef það yrði að veruleika að við kæmumst þangað í lokakeppnina. Núna skiptir öllu máli að komast í gegnum þennan leik hérna í Kasakstan og heimaleikinn við Tékka í sumar og eiga möguleika í haust. Ef Lars og Heimir vilja setja mig inná miðjuna aftur, þá er ég tilbúinn í það. Ég er klár þar sem not eru fyrir mig," sagði Emil.

Líður mjög vel í Verona

Þegar vikið var aftur að ítölsku A-deildinni og gengi Verona sagði Emil að aðalmálið væri að reyna að klára tímabil, sem hefði verið gott að mörgu leyti, með stæl.

„Okkur hefur gengið nokkuð vel. Liðið lenti í smá erfiðleikum fyrir tveimur mánuðum síðan, þar sem við lentum í basli með að vinna leiki og sigum niður töfluna. Undanfarnar vikur hefur þetta verið að koma aftur, við höfum náð fjórum góðum leikjum í röð og reynum að halda því áfram, klífa töfluna aftur og reyna að enda um miðja deild. Það er ótrúlega þéttur pakki þarna í þessari deild."

Emil er að ljúka sínu fimmta tímabili með Verona en hann fór með liðinu úr C-deild upp í A-deild og þar er liðið búið að festa sig í sessi. Hann verður þar áfram næstu árin nema eitthvað óvænt gerist.

„Ég hef ekki einu sinni pælt í öðru, enda skrifaði ég undir nýjan þriggja ára samning síðasta sumar og hefði ekki gert það nema ég hefði virkilega viljað það. Ég er ótrúlega ánægður með allt hjá félaginu og í borginni. Það er líka svo gott að hafa náð stöðugleika í fyrsta sinn á mínum ferli, og að vera með þjálfara sem hefur mikla trú á mér, sem skiptir ótrúlega miklu máli. Það er gott að spila þar sem þjálfarinn hefur trú á manni.

Nei, ég sé ekki ástæðu til að fara neitt. Okkur líður mjög vel í Verona sem er góður staður og þar er ekki undan neinu að kvarta. Enda á maður ekki að kvarta, heldur vera ánægður með það sem maður hefur," sagði Emil Hallfreðsson.

Emil Hallfreðsson í baráttu við Gökhan Gönül í leik Íslands …
Emil Hallfreðsson í baráttu við Gökhan Gönül í leik Íslands og Tyrklands síðasta haust. mbl.is/Ómar
Emil Hallfreðsson reynir skot að marki Hollands.
Emil Hallfreðsson reynir skot að marki Hollands. mbl.is/Ómar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert