Fékk krampa og svima (myndskeið)

Aron Einar Gunnarsson landsliðsfyrirliði í knattspyrnu sagði við mbl.is eftir sigurinn á Kasökum í í undankeppni EM í Astana í dag, 3:0, að heildar frammistaða liðsins hefði verið mjög traust.

„Já, algjörlega. Þetta var bara „solid" frammistaða en við hefðum kannski getað stjórnað leiknum aðeins betur. Það eina neikvæða var það að við hleyptum þeim aðeins inn í leikinn í byrjun seinni hálfleiks, við slöppuðum kannski aðeins of mikið af. En það er mjög jákvætt að taka þrjú stig, það var erfitt að koma hingað og spila á gervigrasi, þó við séum kannski allir vanir því. Þetta var bara sterkt og jákvætt.“

Var ekki mikilvægt að skora eins snemma og raun bar vitni?

„Jú, það var það. Við refsuðum þeim fyrir mistök sem markvörðurinn gerði og svo kom Eiður þarna með sitt „touch" og kláraði þetta vel. Það var eiginlega mikilvægara að fá annað markið frá Birki því eftir það gátum við stjórnað leiknum betur. En við þurfum að læra að halda aðeins meiri einbeitingu. Við misstum tökin, hleyptum þeim inní leikinn, en þeir fengu svo sem ekki mikil dauðafæri. Einn skalla í stöngina, annars ekkert."

Hvers vegna fórstu útaf?

„Ég fékk aðeins krampa í magann, var búinn að finna fyrir því fyrir leikinn og var þarna kominn með smá svima, þannig að ég ákvað að hlaupa útaf. Ég var reyndar að bíða eftir þriðja markinu en það kom ekki,“ sagði Aron Einar Gunnarsson sem fór af velli eftir rúmlega 70 mínútna leik eftir að hafa lagst niður og virst þjáður.

Viðtalið má sjá í myndskeiðinu hér að ofan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert