Ég kom sjálfum mér á óvart

Ersan Gülüm og Jón Daði Böðvarsson í leik Íslands og …
Ersan Gülüm og Jón Daði Böðvarsson í leik Íslands og Tyrklands í haust. mbl.is/Golli

Jón Daði Böðvarsson, sóknarmaður íslenska landsliðsins í knattspyrnu og norska liðsins Viking frá Stavangri, kveðst vera í mjög góðu formi þó keppnistímabilið sé ekki hafið í Noregi.

"Þetta er góð spurning," svaraði Selfyssingurinn ungi þegar mbl.is spurði hann út í þetta atriði á hóteli landsliðsins í Astana í gær. Þar sem norska úrvalsdeildin hefst ekki fyrr en um páskana virðist sem fáir reikni með því að hann verði í byrjunarliðinu gegn Kasakstan í Astana í kvöld, þrátt fyrir að hafa verið í byrjunarliði í öllum fjórum leikjum Íslands í undankeppni EM til þessa.

„Tímabilið er vissulega ekki hafið í Noregi en undirbúningstímabilið er löngu hafið og það er búið að vera þungt með erfiðum æfingum, með æfingaleikjum ofan í það. Líkamlega formið er því gott hjá mér og kroppurinn er í góðu standi, og eftir að við komum hingað til Kasakstan hef ég fundið að ég er í fínu formi. Það er það allra mikilvægasta,“ sagði Jón Daði sem er 22 ára gamall og næstyngstur þeirra sem nú skipa landsliðshóp Íslands. 

Ferskur og tilbúinn til að spila

Hann kveðst hafa spilað fullt af leikjum undanfarnar vikur. „Jú, við vorum í æfingaferð á La Manga og spiluðum tvo leiki þar, og síðan höfum við spilað nokkra leiki heima í Stavangri. Þetta hefur verið fínt, ég er alveg ferskur og tilbúinn til að spila,“ sagði Jón Daði, sem kom óvænt inní byrjunarlið Íslands í fyrsta leik í undankeppni EM síðasta haust og sló í gegn. Hann skoraði fyrsta mark Íslands í undankeppninni, gegn Tyrkjum á Laugardalsvellinum og er nú búinn að spila 10 A-landsleiki fyrir Íslands hönd.

Spurður um þessa óvæntu byrjun á landsliðsferlinum, þar sem honum var kippt beint úr 21-árs landsliðinu og inní byrjunarlið A-landsliðsins í fyrsta leik á stórmóti með litlum fyrirvara svaraði Jón Daði: „„Þetta var mikil og skrýtin upplifun. Markmiðið var allaf að komast í A-landsliðið en ég náði því miklu fyrr en ég bjóst við. Ég reiknaði alls ekki með því að þetta myndi ganga svona rosalega hratt og ég kom sjálfum mér á óvart.

En það er rosalega góð tilfinning að vera kominn þetta vel inn í hópinn og hafa náð að festa mig svona í sessi. Ég hef aðlagast vel, kynnst öllum strákunum, og það er bara svo gaman að vera partur af þessu liði og þessu stóra tækifæri sem núna er til staðar.“

Hef náð að viðhalda sjálfstraustinu

Tyrkjaleikurinn gaf honum að vonum mikið en þar var Jón Daði geysilega ógnandi frá fyrstu mínútu og skoraði með skalla strax á 18. mínútu.

„Algjörlega - það var gaman að fá strax svona mikið sjálfstraust og öryggi. Ég mætti þarna í minn fyrsta alvöru landsleik og andstæðingurinn var ekki bara hver sem er. Þetta voru Tyrkir. Eðlilega var ég svolítið stressaður, en þegar þjóðsöngurinn var búinn og leikurin var hafinn gíraðist ég einhvern veginn upp. Adrenalínflæðið fór í gegnum mig og ég var í svokölluðu „sóni“.

Eftir leikinn áttaði ég mig á þessu: Vá - maður er bara inni á þessu stigi og í þessum gæðum. Leikurinn gaf mér rosalega mikið og einhvern veginn hef ég náð að viðhalda þessu sjálfstrausti allan tímann,“ sagði Jón Daði, sem var kjörinn efnilegasti leikmaður úrvalsdeildarinnar íslensku árið 2012, en þá skoraði hann 7 mörk í 22 leikjum Selfyssinga. Í kjölfarið gekk hann til liðs við Viking og hefur lokið þar tveimur tímabilum í norsku úrvalsdeildinni, þar sem hann á nú 52 leiki að baki.

Verðum ekki að vinna - viljum vinna

Ísland mætir Kasakstan klukkan þrjú í dag að íslenskum tíma og Jón Daði er vel meðvitaður um það sem er í húfi. „Já, við vitum alveg sjálfir og almenningur líka að þetta er leikur sem við verðum að vinna. En við pössum okkur á að hugsa þetta ekki þannig. Heldur að þetta sé leikur sem við viljum vinna. Við viljum ná þremur stigum eins og við gerðum í fyrstu þremur leikjunum, þannig að við erum mjög einbeittir á þetta verkefni.

Þetta verður eilítið öðruvísi en aðrir leikir sem við höfum spilað. Núna mætum við liði sem vill spila góðan fótbolta. Það er samt erfitt að spá fyrir hvernig þeir muni leggja leikinn upp. Það kemur allt í ljós þegar flautað verður á, hvernig þeir byrja að spila boltanum, og við þurfum bara að vera tilbúnir í þann slag. Viljinn skiptir svo miklu máli, og líka dagsformið. En ég hef engar áhyggjur af því. Ég er viss um að við munum mæta 100 prósent tilbúnir í þennan leik,“ sagði Jón Daði Böðvarsson.

Jón Daði Böðvarsson með Bruno Martins Indi og Gregory van …
Jón Daði Böðvarsson með Bruno Martins Indi og Gregory van der Wiel, varnarmenn Hollands, á hælunum. mbl.is/Ómar
Jón Daði Böðvarsson, fyrir miðju, á æfingu landsliðsins í Astana …
Jón Daði Böðvarsson, fyrir miðju, á æfingu landsliðsins í Astana Arena í gær. mbl.is/Víðir Sigurðsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert