Sannfærandi sigur í Astana

Ísland er komið með 12 stig eftir fimm leiki í A-riðli undankeppni Evrópumóts karla í knattspyrnu eftir sannfærandi sigur á Kasakstan, 3:0, á Astana Arena leikvanginum í Astana í dag. Eiður Smári Guðjohnsen og Birkir Bjarnason skoruðu í fyrri hálfleiknum og Birkir bætti öðru við á 90. mínútu leiksins.

Ísland nær því Tékkum að stigum á toppi riðilsins, allavega í bili, en leikur þeirra við Lettland er að hefjast núna klukkan 17. Holland er með 6 stig, Tyrkland 4, Lettland 2 og Kasakstan eitt. Holland og Tyrkland mætast í kvöld.

Leikurinn var jafn til að byrja með og Kasakar gerðu sig líklega um tíma en þeir voru hættulegir í uppstilltum atriðum og náðu að setja pressu á íslenska liðið.

En beint í kjölfarið á því komst Ísland yfir á 20. mínútu. Mistök hja Andrei Sidelnikov markverði, Jóhann Berg Guðmundsson komst inní spyrnu hans frá markinu, sendi inn að vítapunkti á Eið Smára Guðjohnsen sem renndi boltanum yfirvegað með jörðu í vinstra hornið, 0:1.

Íslenska liðið lét kné fylgja kviði og á 32. mínútu tók Gylfi Þór Sigurðsson aukaspyrnu hægra megin á vellinum. Hann sendi boltann innað vítapunkti og þar var Birkir Bjarnason mættur og skoraði með góðum skalla, 0:2.

Kári Árnason fékk tvö góð færi til að skora, sitthvoru megin við annað markið, en skallaði í bæði skiptin framhjá eftir hornspyrnur Gylfa.

Seinni hálfleikur var rólegri en sá fyrri og íslenska liðið hélt ágætum tökum á honum lengst af en Kasakar áttu þó hættulegar rispur inná milli.

Engu munaði að Renat Abdulin minnkaði muninn á 63. mínútu þegar hann skallaði í stöng íslenska marksins eftir aukaspyrnu frá hægri. Kasakstan náði nokkurri pressu um tíma en hún fjaraði út og Ísland náði aftur ágætum tökum á leiknum. Dauðafærin voru þó engin en nokkur ágæt skot að marki.

Aron Einar Gunnarsson fyrirliði fór af velli á 72. mínútu og virtist hafa meiðst á hönd.

Birkir Bjarnason skoraði svo þriðja markið á 90. mínútu eftir skyndisókn og sendingu frá Jóni Daða Böðvarssyni.

Kasakstan fékk dauðafæri eftir það en íslensku varnarmennirnir björguðu á síðustu stundu í markteignum.

Kasakstan 0:3 Ísland opna loka
90. mín. Birkir Bjarnason (Ísland) skorar 0:3. Þetta er búið. Einföld sókn, Jón Daði Böðvarsson fór upp hægri kantinn og renndi síðan yfir til vinstri á Birki. Hann plataði varnarmann og skaut frá vítateig, boltinn fór af mótherja og í netið.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert