Kom bara eftir nokkrar sekúndur

Alfreð Finnbogason.
Alfreð Finnbogason. Ljósmynd/Kristján Bernburg

Alfreð Finnbogason, sóknarmaður frá Real Sociedad, var nærri því að skora fyrir Ísland á sömu mínútu og honum var skipt inná í sigurleiknum gegn Kasakstan í undankeppni EM í knattspyrnu í Astana í dag.

Hann kom inná sem varamaður á 84. mínútu fyrir Eið Smára Guðjohnsen og hljóp beint inn í vítateig Kasaka þar sem hann fékk sendingu frá Jóhanni Berg Guðmundssyni, en náði ekki nógu góðu skoti og Andrei Sidelnikov í marki heimamanna varði frá honum.

„Já, ég fór beint í færi og hefði átt að gera betur og skora. Ætli ég verði ekki að kenna því um að ég var ekki kominn takt í leikinn, þetta kom bara nokkrum sekúndum eftir að ég hljóp inná völlinn.

En við unnum leikinn og það var fyrir öllu. Mér fannst Kasakarnir ekki skapa mikið en við stjórnuðum þó ekki leiknum algjörlega. Við vorum betri aðilinn, klárlega, og munurinn á liðunum var sá að við vorum með meiri gæði en þeir framarlega á vellinum, það skildi þau að. Þetta eru fyrst og fremst frábær stig og við tökum öllum sigrum fagnandi," sagði Alfreð Finnbogason sem var ógnandi í sóknarleik Íslands á þeim stutta tíma sem hann spilaði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert