Óeðlilegt að við spilum út leiki

Heimir Hallgrímsson.
Heimir Hallgrímsson. Ljósmynd/Kristján Bernburg

„Við töluðum um það fyrir þessa ferð að það skipti svo sem engu hvernig leikurinn yrði, svo framarlega sem við ynnum hann, og 3:0 er frábært," sagði Heimir Hallgrímsson, annar landsliðsþjálfara Íslands í knattspyrnu, við mbl.is eftir sigurinn gegn Kasakstan í Astana í dag.

Spurður um hvort hann væri sáttur við spilamennskuna svaraði Heimir: „Já, ég er nokkuð sáttur við hana. Það er dálítið óeðlilegt fyrir Íslendinga að spila út leiki, það eru aðallega Ítalir sem gera það, og mér hefur alltaf fundist Íslendingar þurfa að berjast til að vera á lífi. Ef þeir ætla í svona "safe mode" í hálfleik, eins og við töluðum um, þar sem ógnunin datt svolítið út í seinni hálfleiknum.

Þessvegna gerðum við breytingar á liðinu nokkuð hratt og ferskir fætur komu inn með ógnun. Við komumst inn í leikinn aftur og gátum spilað hann út, en það ekki okkur eðlislægt að gera það og eyða tíma eins og við gerðum.

Þetta er eitthvað sem við þurfum að læra og það tekur tíma, og að því leyti var gott að hafa leikmenn eins og Eið Smára og svo Emil sem er vanur því frá Ítalíu að spila út leiki, og það var frábært að fá hann inn á þessum tímapunkti í leikinn.

Tólf stig og markatalan 12:2, það er ekki oft sem Ísland hefur verið í þeirri stöðu og við þurfum að kunna að njóta þess. En góð byrjun er ekki ávísun á gott framhald svo við verðum að halda áfram að muna hvað það var sem skóp þennan góða árangur í byrjun og halda því áfram. Eins og ég segi, á meðan við höldum hreinu eigum við möguleika á að vinna alla. Við erum búnir að halda hreinu í fjórum leikjum af fimm, sem er meiriháttar og framar vonum.

Við spiluðum upp á það að geta farið í Tékkaleikinn með það að markmiði að endurheimta fyrsta sætið. Auðvitað vorum við ekki ánægðir með leikinn í Tékklandi, viljum gera betur og borga fyrir það. Vonandi getum við það og ég trúi ekki öðru en það verði fullt hús á Laugardalsvelli 12. júní," sagði Heimir Hallgrímsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert