Eiður skákaði pabba sínum

Eiður Smári Guðjohnsen í landsleiknum í gær.
Eiður Smári Guðjohnsen í landsleiknum í gær. AFP

Eiður Smári Guðjohnsen er þremur mánuðum eldri en Arnór Guðjohnsen, faðir hans, var þegar hann skoraði sitt síðasta landsliðsmark fyrir Íslands hönd.

Eiður gerði sitt 25. mark fyrir A-landslið Íslands í gær, í sínum 79. landsleik, þegar hann kom liðinu yfir eftir 20 mínútna leik gegn Kasakstan í undankeppni Evrópumótsins í knattspyrnu í Astana. Eiður er 36 ára og sex mánaða gamall og bætti með þessu eigið markamet fyrir landsliðið.

Arnór lék sinn 73. og síðasta landsleik á Laugardalsvellinum 11. október 1997, þá 36 ára og þriggja mánaða gamall. Arnór hélt uppá það með því að skora eitt marka Íslands í 4:0-sigri á Liechtenstein í undankeppni HM 1998. Það var fjórtánda mark Arnórs fyrir íslenska landsliðið.

Eiður kom inná fyrir föður sinn í sínum fyrsta landsleik, gegn Eistlandi í Tallinn 24. apríl 1996. Til stóð að þeir feðgar myndu spila saman með landsliðinu gegn Makedóníu í undankeppni HM tveimur mánuðum síðar.

Í millitíðinni fótbrotnaði Eiður illa í leik með 19 ára landsliði Íslands á Írlandi og var frá keppni í tvö ár. Þar með varð ekkert af því að hann og Arnór yrðu saman inni á vellinum í landsleik eins og útlit var fyrir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert