Þessvegna völdum við hann

Lars Lagerbäck.
Lars Lagerbäck. mbl.is/Golli

Lars Lagerbäck, annar þjálfara íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, sagði eftir sigurinn gegn Kasakstan í Astana í gærkvöld að hann væri afar ánægður með frammistöðu liðsins í leiknum.

„Það er ánægjulegt að vera komnir aftur af stað og þetta var virkilega góður sigur í virkilega góðum leik. Við þurftum að leggja mjög hart að okkur og ég er því afar ánægður með frammistöðu leikmanna,“ sagði Lagerbäck við Hans Steinar Bjarnason í viðtali á RÚV strax eftir leikinn.

Spurður um Eið og markið hans svaraði Lagerbäck: „Þessvegna völdum við hann. Eiður er enn virkilega góður fótboltamaður og við völdum hann í byrjunarliðið þar sem við vonuðumst til þess að með því tækist okkur að halda boltanum betur. Og leikmennirnir stóðu sig í heildina vel mestallan tímann.“

Spurður hvort allt hefði farið samkvæmt áætlun sagði hann: „Maður veit aldrei fyrirfram, en eins og þetta þróaðist var það eins og við vonuðumst eftir. Við skoruðum tvö góð mörk í fyrri hálfleik, og það gerir leikinn alltaf auðveldari því þá þurfa menn ekki að vera stressaðir. Leikmennirnir fylgdu mjög vel því leikplani sem við settum upp og við náðum því sem við ætluðum okkur,“ sagði Lars Lagerbäck.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert