Hinn fullkomni dagur

Birkir Bjarnason og Gylfi Þór Sigurðsson léku stórt hlutverki í …
Birkir Bjarnason og Gylfi Þór Sigurðsson léku stórt hlutverki í sigurleik Íslands í Astana á laugardaginn. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Slagurinn um sætin í lokakeppni Evrópumótsins í Frakklandi 2016 er hálfnaður. Eða allavega baráttan um þau tvö sæti sem gefa öruggan keppnisrétt þar. Og það má með sanni segja að laugardagurinn 28. mars hafi verið dagur Íslands. Þrjú stig sótt í lengsta hugsanlega ferðalagi milli tveggja þjóða í Evrópukeppni og svo sameinuðust keppinautarnir í riðlinum um að gera daginn sem bestan fyrir Lars Lagerbäck, Heimi Hallgrímsson og þeirra einbeittu vígamenn.

Lou Reed samdi „Perfect Day“ af einhverju öðru tilefni en það ljúfa lag lýsir kannski þessum degi best. Við hæfi að raula það með.

Ef íslenska liðið nær þessu stóra takmarki sínu verður eflaust oftar en einu sinni litið til baka og horft til þessa kalda laugardags í kasösku höfuðborginni með umtalsverðri hlýju.

Lettland náði óvæntu jafntefli í Tékklandi, missti reyndar naumlega af sigri, og Hollendingar og Tyrkir skildu líka jafnir. Þetta var eins og úrslitin væru pöntuð fyrir okkur Íslendinga og gerðu sigurinn í Kasakstan nánast fimm stiga virði, með frjálslegum útreikningum gamals nemanda úr máladeild.

Lagerbäck var að vonum í ljúfu skapi þegar ég hitti hann í flugstöðinni í Astana í gær, þar sem liðið var að gera sig klárt í flugið til Frankfurt.

„Já, þetta var hinn ánægjulegasti dagur. Við fórum í lúmskt erfiðan útileik og unnum hann 3:0, sem er ansi notalegt. Svo getum við ekki kvartað yfir hinum leikjunum því jafnteflin tvö þýða að öll hin liðin í riðlinum töpuðu tveimur stigum og það kemur okkur að sjálfsögðu til góða,“ sagði Lagerbäck.

Svíinn var undrandi á úrslitunum í Tékklandi. „Ég hefði aldrei lagt miklar fjárhæðir undir um að þetta yrði niðurstaðan þar. Ég bjóst alls ekki við þessum úrslitum. Jafntefli þar var virkilega óvænt. Það var miklu frekar hægt að búast við því að Holland og Tyrkland gætu deilt með sér stigum. Þau úrslit gátu alveg verið í kortunum.

Við erum í úrvalsstöðu núna og getum engan veginn kvartað. Það er í okkar höndum að ná í þau stig sem við þurfum. Vissulega eru eftir erfiðir útileikir gegn Hollandi og Tyrklandi en svo eru þrír heimaleikir líka. Við gætum jafnvel tapað einum heimaleikjanna og samt átt möguleika. En sá sem ætlar sér að komast áfram í svona keppni þarf að taka megnið af sínum stigum heima. Núna er enn mikilvægara að eiga góðan leik gegn Tékkum,“ sagði Lars Lagerbäck.

Fréttaskýringu Víðis má lesa í heild sinni í íþróttablaði Morgunblaðsins sem kom út í morgun. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert