Kemur ekki til greina að skora ekki mark

Guðbjörg Gunnarsdóttir.
Guðbjörg Gunnarsdóttir. Ómar Óskarsson

„Það gengur ekki að spila fimmta leikinn í röð án þess að skora mark. Það kemur ekki til greina,“ sagði Guðbjörg Gunnarsdóttir landsliðsmarkvörður kvennalandsliðs Íslands í knattspyrnu við mbl.is í dag fyrir fyrstu æfingu liðsins sem spilar vináttulandsleik við sterkt lið Hollands á laugardag en liðin mætast í Kórnum kl. 14:00.

Dregið verður í riðla fyrir undankeppni EM þann 13. apríl en mótið verður haldið í Hollandi. Ísland verður í efsta styrkleikaflokki þegar dregið verður.

Íslenska liðið spilaði varnarsinnað í Algarve-bikarnum í síðasta mánuði og skoraði ekki mark gegn sterkum andstæðingum Noregs, Bandaríkjanna og Sviss á mótinu. Íslenska liðið gerði markalaust jafntefil við Bandaríkin sem enduðu svo á því að vinna mótið.

Þrátt fyrir markaleysið er stemningin í íslenska hópnum góð.

„Það eru allir glaðir að hittast aftur eftir skemmtilega Algarve-ferð. Þetta er spennandi verkefni, ég hitti tvo liðsfélaga og það verður gaman að mæta þeim,“ sagði Guðbjörg sem spilar með Lilleström í Noregi en hún segir hollenska liðið sterkt.

„Þetta er mjög gott lið sem er að fara á HM. Vonandi getur fólk komið á völlinn og séð góðan leik. Við fáum ekkert alltaf svona góðan andstæðing á heimavelli. Við spilum heldur ekki á hverju degi á Íslandi, þetta er frábært tækifæri fyrir fólk að koma,“ sagði Guðbjörg.

Meiri áhersla verður lögð á sóknarleikinn.

„Við erum að fara aðeins í uppspil sem mikil þörf er á. Við erum að móta nýtt lið og það tekur tíma að fá bæði sóknarleikinn og varnarleikinn til að virka vel. Við vorum auðvitað að spila á móti liðum eins og Bandaríkjunum, Noregi og Sviss og hugsuðum fyrst og fremst um að loka markinu,“ sagði Guðbjörg. 

Eins og áður segir spilar Guðbjörg með Lilleström í Noregi en tímabilið sem nú er nýhafið er hennar annað hjá félaginu. 

„Ég er í mikilli samkeppni við markvörðinn í norska landsliðinu. Hún heldur mér á tánum á hverjum degi. Liðið er gott, og við unnum Stabæk í fyrstu umferðinni um helgina þar sem ég spilaði allan leikinn. Það gekk mjög vel,“ sagði Guðbjörg.

Áður hefur Guðbjörg spilað með Turbine Potsdam, Avaldsnes, Djurgården, Val og FH.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert