Óskar Örn snýr aftur til KR

Óskar Örn Hauksson.
Óskar Örn Hauksson. mbl.is/Eggert

Óskar Örn Hauksson, sóknarmaður KR-inga, er á leið í raðir Vesturbæjarliðsins aftur eftir stutta lánsdvöl hjá kanadíska liðinu FC Ed­mont­on. Óskar Örn er samningsbundinn KR og í samtali við mbl.is sagði Bjarni Guðjónsson, þjálfari KR, að Óskar kæmi heim á morgun.

Óskar Örn er sannkallaður hvalreki fyrir KR sem mætir með ansi breytt lið til leiks í byrjun maí þegar Pepsi-deildin verður flautuð af stað.

„Hann er að koma heim á morgun og það eru engar líkur á að hann verði þarna áfram. Hann er með samning við okkur og er á leiðinni heim,“ sagði Bjarni Guðjónsson við mbl.is í dag.

KR hefur misst nokkra lykilleikmenn eins og Hauk Heiðar Hauksson, til AIK, Baldur Sigurðsson til SönderjyskE og Guðmund Reyni Guðmundsson til Víkings Ólafsvíkur.

Þeir hafa þó fengið til sín sterka leikmenn eins og Pálma Rafn Pálmason frá Lilleström, Rasmus Christiansen frá Ull/Kisa, Skúla Jón Friðgeirsson frá Gefle, Kristin Magnússon frá Víking, Sören Frederiksen frá AaB og Jacob Schoop svo einhverjir séu nefndir.

Nánara yfirlit um leikmannaskipti í íslenska boltanum má sjá hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert