,,Nenni ekki að eyða dýrmætum tíma í eitthvað rugl"

Óskar Örn Hauksson í leik með KR
Óskar Örn Hauksson í leik með KR Eggert Jóhannesson

,,Já, þetta var óþarfi fannst mér. Þetta var týpískt Stjörnumark, en vel gert hjá þeim," sagði Óskar Örn Hauksson, leikmaður KR í knattspyrnu eftir 1:0 tap liðsins gegn Stjörnunni í Meistarakeppni KSÍ í kvöld.

Stjörnumenn fögnuðu sigri í Meistarakeppni KSÍ í kvöld en hinn 19 ára gamli, Þórhallur Kári Knútsson, skoraði sigurmarkið undir lok leiksins.

Þetta var fyrsti titill Stjörnumanna á tímabilinu en Óskar Örn var nokkuð ánægður með frammistöðu liðsins í heildina í kvöld.

,,Frammistaðan var ágæt en menn vita að deildin er að byrja í næstu viku og kannski eitthvað að halda aftur af sér. Ágætlega spilaður leikur og óþarfi að tapa honum."

Þetta stefndi í einhverja vitleysu fyrir mína hönd

Óskar hélt út til Edmonton FC í NASL-deildinni á láni frá KR eftir síðasta tímabil en hann fékk lítið að spila með liðinu og ákvað hann því að snúa aftur heim eftir nokkurra mánaða dvöl í Kanada.

,,Ég æfi þarna með liðinu og tek undirbúningstímabilið með þeim og allt í góðu með það en svo stefndi þetta í einhverja vitleysu fyrir mína hönd. Þetta er dýrmætur tími á mínum ferli og ég nenni ekki að vera eyða honum í eitthvað svona rugl, svo ég ákvað að koma heim."

,,Mitt hlutverk var bara óljóst. Stundum ganga hlutirnir upp og stundum ekki en ég er feykilega sáttur með að vera kominn heim," sagði Óskar um dvölina.

Getur ekkert lið bókað eitt né neitt

Pepsi-deildin hefst á sunnudaginn en KR leikur þó ekki fyrsta leik sinn fyrr en á mánudaginn er liðið mætir FH í Frostaskjólinu.

,,Deildin er orðin hrikalega sterk og margir góðir strákar komnir í deildina og svo voru margir góðir fyrir. Það getur ekkert lið bókað eitt né neitt, svo menn geta verið virkilega spenntir fyrir sumrinu."

,,Ég er í fínu formi en hefði mátt spila meira. Ég er annars í fínu standi," sagði Óskar að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert