,,Vonumst eftir því að toppa á réttum tíma"

Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Stjörnunnar, á leiknum í kvöld.
Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Stjörnunnar, á leiknum í kvöld. Eva Björk Ægisdóttir

Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari karlaliðs Stjörnunnar í knattspyrnu, var ánægður með fyrsta titil liðsins á tímabilinu er það sigraði KR 1:0 í Meistarakeppni KSÍ í kvöld.

Deildar- og bikarmeistarar síðustu leiktíðar mættust í Kórnum í kvöld en þetta var síðasti leikur beggja liða fyrir Pepsi-deildina sem hefst næstu helgi.

,,Ég er hrikalega ánægður með þetta mark og hrikalega vel spilað hjá Heiðari og Tóta. Þetta var snilldarmark eiginlega," sagði Rúnar við mbl.is í kvöld.

,,KR-ingar fengu ekki mörg færi í þessum leik og við lokuðum vel á þá. Við vorum agaðir og skipulagðir og það skipti máli."

Veðrátta og veikindi haft áhrif á undirbúninginn

Stjörnumenn hafa verið öflugir í vetur en liðið komst í úrslitaleik Fótbolta.net mótsins þar sem liðið beið lægri hlut fyrir Breiðablik, auk þess sem að liðið kom sér í 8-liða úrslit Lengjubikarsins en ákvað að fara frekar í æfingaferð til Spánar.

,Það gekk ágætlega og það er stutt í mót. Við hljótum að vonast eftir því að liðið sé að toppa á réttum tíma og komast vel inn í mótið en síðan verðum við að sjá hvernig við förum inn í Skagaleikinn og vonandi fáum við góða frammistöðu þar," sagði Rúnar.

,,Okkur hefur gengið ágætlega í vetur. Við erum að lenda í þessari veðráttu eins og öll önnur lið og það hefur háð undirbúningnum og truflað hann aðeins. Við áttum fína ferð til Spánar en komum margir til baka og veikir eftir þá ferð. Það vantar marga sem eru með magakveisu, hita og slíkt."

Breiðablik á eftir að koma skemmtilega á óvart

Deildin hefst næstu helgi og er útlit fyrir að baráttan verði hörð á toppnum en Rúnar spáir því að Breiðablik komi á óvart. Liðið vann Fótbolta.net mótið eins og kom fram hér að ofan, auk þess sem að liðið vann Lengjubikarinn.

,,Ég held að það séu fleiri lið sem gera tilkall að vera á toppnum þannig að ég held að hún verði jöfn og ég vona það að hún verði það. Breiðablik á eftir að koma skemmtilega á óvart og gaman að sjá hvernig þeir byggja þetta upp hjá sér. Valur, Víkingur og Leiknir munu einnig koma á óvart," sagði Rúnar ennfremur.

Titilbaráttan hefst á sunnudag

Fyrsti leikur Stjörnunnar er gegn ÍA á Akranesi á sunnudag, en ljóst er að það verða ekki þrjú stig gefins þar. Rúnar ber mikla virðingu fyrir Skagamönnum sem hafa verið skipulagðir í vetur.

,,Skaginn er rótgrónasta félag á Íslandi. Við getum ekkert pælt í því hvort þeir séu nýliðar eða ekki, þetta lið hefur unnið held ég flesta Íslandsmeistaratitla á Íslandi. Ég veit ekki hvort ég sé að fara með einhverjar staðreyndir eða ekki en þeir hafa sýnt sig í vetur að þeir eru vel skipulagðir. Við þurfum að vera gríðarlega agaðir til að fá góð úrslit þar," sagði Rúnar að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert