Ánægður með stigasöfnunina

Ágúst Gylfason
Ágúst Gylfason mbl.is / Eva Björk Ægisdóttir

Ágúst Gylfason, þjálfari Fjölnis, var kampakátur með 2:0 sigur Fjölnis á ÍA í sjöttu umferð Pepsi deildarinnar á Fjölnisvellinum í kvöld. Fjölnir er með 11 stig eftir sigurinn í kvöld og situr í fjórða sæti Pepsi deildarinnar eftir sex umferðir.

„Þetta var flottur sigur og það er sterkt að halda hreinu hérna á heimavelli. Við skoruðum tvö flott mörk og nældum okkur í þrjú stig sem er kærkomið. Við sköpuðum okkur fullt af færum hér í kvöld og sigurinn er það sem telur í þessu. Þetta var svokallaður sex stiga leikur. Þessum liðum var báðum spáð frekar neðarlega í deildinni og það er flott að í þrjú stig í þessum leik.

„Við erum með góðan leikmannahóp. Við erum með 14-15 leikmenn á meistaraflokksaldri og svo 8-9 unga og spræka stráka sem eru í æfingahóp hjá okkur. Strákarnir eru að leggja mikið á sig á æfingum og það skiptir litlu máli hver dettur út og hver kemur inn í liðið sem er jákvætt.“

„Við erum sáttir við stigasöfnunina hingað til, sérstaklega eftir að hafa innbyrt þrjú stig hér í kvöld. Við erum á ágætis róli finnst mér, en þetta er hins vegar bara rétt að byrja og það er ekki nóg að vera með 11 stig í lok móts, það er alveg klárt.“ sagði Ágúst Gylfason í viðtali við mbl.is eftir leikinn í kvöld. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert