Allar forsendur fyrir frábæru kvöldi

Gunnleifur Gunnleifsson og Hannes Þór Halldórsson gera sig klára fyrir …
Gunnleifur Gunnleifsson og Hannes Þór Halldórsson gera sig klára fyrir æfingu í vikunni. mbl.is/Golli

„Við þurfum að skerpa á ýmsum atriðum frá fyrri leiknum við Tékka. Það eru allir sammála um það að við spiluðum ekki nægilega vel og þetta var langversti leikur okkar í keppninni,“ sagði Hannes Þór Halldórsson, landsliðsmarkvörður, við mbl.is á æfingu fyrir stórleikinn við Tékka í undankeppni EM annað kvöld. „Það eru áhersluatriði sem við þurftum að laga og við höfum legið yfir þeim, og erum bjartsýnir á að spila mun betri leik núna,“ sagði Hannes.

Tékkland vann fyrri leik liðanna í Plzen á grátlegu sjálfsmarki Jóns Daða Böðvarssonar, og ef til vill hefði Hannes getað gert betur í því marki. Hann segir tapið ekki sitja í sér:

„Ekki lengur. Það var hundleiðinlegt að þetta skyldi fara svona. Þetta var stór leikur og hefði verið virkilega flott fyrir okkur að ná góðum úrslitum þarna. Ég var svekktur eftir leikinn og einhverja daga eftir það, en svoleiðis er það bara í fótbolta. Maður þolir það alveg og þetta situr ekkert í mér. Ég hlakka bara til að mæta þeim aftur núna og við erum allir klárir í að svara fyrir þennan leik úti í Tékklandi,“ sagði Hannes. Hann hefur eins og gefur að skilja orðið var við mikla spennu í þjóðinni fyrir leiknum:

„Það fer ekkert framhjá manni og ekki að ástæðulausu. Þetta er risastór leikur og mikilvægur, á föstudags-sumarkvöldi hérna í Laugardalnum. Það eru allar forsendur fyrir frábæru kvöldi og eðlilegt að það sé tilhlökkun og stemning í fólki, og vonandi stöndum við okkur og sjáum til þess að þetta verði ógleymanlegt kvöld,“ sagði Hannes.

Leikmaðurinn sem poppaði fyrst upp í hausinn

Í marki Tékka stendur auðvitað Petr Cech, markvörður Chelsea, sem Hannes nýtur þess að fá að mæta:

„Þetta er einn besti markvörður heims og virkilega gaman að mæta honum. Þetta var sá leikmaður sem poppaði fyrst upp í hausinn á mér að yrði gaman að mæta, þegar maður sá hvernig riðillinn væri. Ég er mikill áhugamaður um markmenn og fylgist vel með, og það er gaman að spreyta sig á móti þessum bestu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert