Svekkjandi ósigur í Víkinni

Haukur Baldvinsson með boltann gegn Koper í kvöld.
Haukur Baldvinsson með boltann gegn Koper í kvöld. Styrmir Kári

Víkingur Reykjavík beið afar svekkjandi 1:0 ósigur í fyrsta Evrópuleik liðsins í 23 ár þegar liðið tók á móti slóvenska liðinu FC Koper í 1. umferð forkeppni Evrópudeildarinnar.

Sigurmark Slóvenanna var af dýrari gerðinni - þrumufleygur af 30 metra færi.

Liðin mætast í síðari viðureign liðanna í Slóveníu eftir viku. Þar þurfa Víkingar að skora tvö mörk til þess að komast áfram eftir venjulegan leiktíma.

Víkingar náðu fljótt yfirhöndinni í fyrri hálfleiknum. Strax á 3. mínútu fengu þeir aukaspyrnu á góðum stað fyrir Ívar Örn Jónsson sem skaut boltanum í þverslá og Víkingar óheppnir að vera ekki komnir yfir.

Slóvenarnir fengu sitt hættulegasta færi á 20. mínútu þegar þeirra besti maður í leiknum, framherjinn Josip Ivancic, skallaði boltann á markið en Thomas Nielsen varði frábærlega.

Eftir þetta náðu Koper-menn að skipuleggja sig betur og Víkinga vantaði herslumuninn til þess að reka smiðshöggið á sóknir sínar og staðan 0:0 í hálfleik.

Koper var sagt vera varnarsinnað fyrir leikinn og það var liðið svo sannarlega. Liðið stillti upp í fimm manna varnarlínu og var auk þess með djúpan miðjumann sem var oftar en ekki ofan í miðvörðunum.

Koper-menn hófu síðari hálfleikinn hins vegar af miklum krafti og fengu líklega hættulegasta færið í leiknum á 50. mínútu eftir varnarmistök Víkinga sem misstu boltann á hættulegum stað.

Boltinn endaði að lokum á Ivica Guberac sem lét Nielsen verja vel frá sér.

Eina mark leiksins skoraði Matej Pucko með stórkostlegu skoti fyrir utan teig á 77. mínútu. Víkingar fengu á sig hornspyrnu og boltinn barst til Pucko sem þrumaði knettinum uppi í hægra hornið, 0:1.

Víkingar gerðu hvað þeir hvað þeir gátu til að jafna metin en höfðu ekki erindi sem erfiði og lokatölur 0:1.

Fylgst var með gangi mála í  beinni textalýsingu hér á mbl.is.

Víkingur R. 0:1 Koper opna loka
90. mín. Fimm mínútur í uppbótartíma.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert