Vonandi náum við Gummi fram hefndum

KR-ingar verða í eldlínunni í Írlandi í kvöld.
KR-ingar verða í eldlínunni í Írlandi í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bikarmeistararnir úr KR verða í eldlínunni á Turner's Cross-vellinum í Cork á Írlandi í kvöld þegar þeir mæta Cork City í fyrri rimmu liðanna í 1. umferð Evrópudeildar UEFA í knattspyrnu.

Cork City er líkt og KR í öðru sæti í deildarkeppninni heima fyrir en liðið hefur aðeins tapað einum af 18 leikjum sínum í deildinni.

Morgunblaðið ræddi við Pálma Rafn Pálmason, fyrirliða KR-liðsins, í gær en Pálmi á harma að hefna gegn Cork City sem og aðstoðarþjálfarinn Guðmundur Benediktsson. Þeir voru í liði Vals árið 2007 þegar Cork sló Valsmenn út í Evrópukeppninni. Cork vann fyrri leikinn á Laugardalsvellinum, 2:0, en Valur hafði betur í þeim seinni, 1:0. Spurður hvort hann muni eitthvað eftir þessum leikjum sagði Pálmi Rafn:

„Ég mundi ekkert fyrr en einhver sýndi mér mörkin úr heimaleiknum. Þá rifjaðist eitthvað aðeins upp fyrir mér. Svo man ég að Bjössi Hreiðars fékk rautt spjald í seinni leiknum og hefur ekki enn tekið út bannið. En vonandi náum við Gummi fram hefndum,“ sagði Pálmi Rafn við Morgunblaðið.

„Það er alltaf planið hjá okkur að gera góða hluti en við vitum að við erum að mæta hörkuliði. Við þurfum að eiga góðan leik til að ná í góð úrslit fyrir seinni leikinn heima á Íslandi. Útivallarmark í Evrópukeppni er dýrmætt og það verður stór plús ef okkur tekst að skora. Við förum í þennan leik sem aðra með því markmiði að vinna. Við vitum að það er mikið í húfi fyrir félagið og íslenskan fótbolta að komast áfram í næstu umferð og við ætlum okkur svo sannarlega að gefa allt í þetta verkefni,“ sagði Pálmi Rafn.

Sjá allt viðtalið við Pálma Rafn í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert