Lið eiga sína bestu leiki í Vesturbænum

Bjarni Guðjónsson
Bjarni Guðjónsson Styrmir Kári

„Þetta verður erfitt verkefni. ÍBV er komið á fínt skrið og er með öflugan og góðan leikmannahóp. Þetta verður verðugt verkefni,“ sagði Bjarni Guðjónsson þjálfari KR-inga við mbl.is í dag eftir að búið var að draga í undanúrslit Borgunarbikars karla í knattspyrnu en þar mætir KR-ingar ÍBV.

„Við erum vanir því að þegar lið koma í Vesturbæinn þá eiga þau yfirleitt sína bestu leiki. Þeir halda áfram að styrkja sig og ætla að reyna að ná sér í leikmann í glugganum. Þeir eru vel mannaðir og það er talað mikið um það að það sé að koma í gegn núna það sem Jói (Jóhannes Harðarson þjálfari ÍBV) hefur verið að vinna í með liðinu,“ sagði Bjarni en KR-ingar mörðu 1:0 sigur gegn ÍBV í deildinni í lok maí.

KR-ingar eiga fyrir höndum erfiðan heimaleik gegn Cork City frá Írlandi á fimmtudag. Fyrri leikurinn fór 1:1 en Bjarni segir KR-inga ætla sér áfram.

„Hann var mjög erfiður. Þeir eru mjög líkamlega sterkir. Þeir eru grimmir, hlaupa mikið og berjast. Sterkir í föstum leikatriðum. Þeir vilja koma sér áfram eins og við en mér finnst vera meiri gæði í okkar liði. Að því sögðu ætlum við okkur áfram,“ sagði Bjarni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert