Beint í leikinn vegna umferðarslyss

Mist Edvardsdóttir, fyrirliði Vals.
Mist Edvardsdóttir, fyrirliði Vals. Skapti Hallgrímsson

Mist Edvaldsdóttir, fyrirliði Vals, var fengin í viðtal eftir afhroð Valsliðsins gegn Þór/KA í kvöld. Leikið var í Pepsi-deild kvenna á Þórsvellinum og lauk leiknum með 5:0 sigri Þórs/KA.

„Þetta var ekki skemmtilegt og við virkuðum ekki alveg tilbúnar í leikinn. Við töfðumst á leiðinni vegna umferðaslyss á Öxnadalsheiðinni og komum nánast beint í leikinn. Það er samt engin afsökun og í upphituninni fannst mér við vel stemmdar. Mér fannst við ekki finna taktinn og ekki ná að spila okkar bolta,“ sagði mist.

„Svo fannst mér, eins og oft gerist hér á Akureyri, að dómararnir séu bara úr félaginu. 5:0 gefur ekki rétta mynd af leiknum en það var bara allt inni hjá þeim. Við verðum bara að læra af þessum leik og halda áfram að safna stigum. Við erum enn í 3. sætinu og vonum að liðin fyrir ofan okkur tapi einhverjum stigum. Við stefnum á að komast í bikarúrslit en erum að missa þrjá menn til Bandaríkjanna um mánaðarmótin. Það er ekki ákjósanleg staða að missa svona menn og spila restina af mótinu þannig,“ sagði Mist.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert