Glenn á leiðinni til Eyja á ný

Jonathan Glenn, sóknarmaður ÍBV og landsliðsmaður Trínidad og Tóbagó.
Jonathan Glenn, sóknarmaður ÍBV og landsliðsmaður Trínidad og Tóbagó. mbl.is/Eggert

Sóknarmaðurinn Jonathan Glenn, markahæsti leikmaður ÍBV í fyrra og það sem af er þessu tímabili, getur komið til liðs við Eyjamenn á ný fyrir næsta leik í Pepsi-deild karla í knattspyrnu.

Landslið Trínidad og Tóbagó fékk í gærkvöld úr keppni í átta liða úrslitum Gullbikarsins eftir mikla dramatík gegn Panama þegar liðin mættust í East Rutherford í Bandaríkjunum.

Staðan var 1:1 eftir venjulegan leiktíma og líka eftir framlengingu og í vítaspyrnukeppni þurfti fjórar umferðir í bráðabana til að knýja fram úrslit. Panama hafði þar betur að lokum, 6:5, og er komið í undanúrslit en Trínidad og Tóbagó er úr leik.

Glenn sat á varamannabekk Trínidad og Tóbagó allan tímann, rétt eins og í hinum þremur leikjum liðsins í Gullbikarnum, og fékk því ekkert að spreyta sig. Hann missti af tveimur leikjum ÍBV í Pepsi-deildinni vegna mótsins, gegn Fjölni og ÍA, og þar á undan hafði hann skorað í fjórum af fimm síðustu leikjum Eyjamanna í deildinni.

Panama mætir Mexíkó í undanúrslitum keppninnar en Mexíkóar sigruðu Kostaríka 1:0 í framlengdum leik í nótt þar sem André Guardado skoraði sigurmarkið úr vítaspyrnu í uppbótartíma framlengingar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert