„Drullufúll með að detta út“

Jörundur Áki Sveinsson.
Jörundur Áki Sveinsson. mbl.is / Eggert Jóhannesson

„Það er svekkjandi að tapa og hvað þá svona, við spiluðum feykilega vel í dag og mér fannst við eiga mjög flottan leik,“ sagði Jörundur Áki Sveinsson, þjálfari Fylkis, eftir 2:1 tap í framlengingu á heimavelli gegn Stjörnunni í undanúrslitum Borgunarbikars kvenna í knattspyrnu.

Fylkir komst í forystu með marki Berglindar Bjargar Þorvaldsdóttur á 42. mínútu en Francielle jafnaði metin fyrir Stjörnuna á 70. mínútu. Rúna Sif Stefánsdóttir skoraði síðan sigurmarkið á 97. mínútu í framlengingu.

„Ég er mjög stoltur af mínu liði og mér fannst þær spila mjög vel. Þetta var frábær leikur, frábærar aðstæður en maður er náttúrulega drullufúll með að detta út. Við gáfum þetta svo frá okkur vegna einbeitingarleysis en við fengum tækifæri til að skora annað mark bæði í lok leiksins og í seinni hálfleik framlengingarinnar.

Liðin mættust síðast í 11. umferð Pepsi-deildar kvenna síðastliðinn mánudag en þá vann Stjarnan 4:0 sigur. Jörundur var ánægðari með frammistöðu Fylkis í dag.

„Mér fannst við koma mjög vel inn í þennan leik, við pressuðum á þær og fengum færi en svona er þetta stundum, það eru ekki alltaf jólin. Okkur fannst síðasti leikur spilast einkennilega. Við spiluðum vel fyrsta hálftímann en fengum á okkur mark og misstum síðan leik út af og vorum einum færri í 60 mínútur,“ sagði Jörundur.

Öll mörk Stjörnunnar í báðum leikjunum komu eftir fyrirgjafir eða vængspil, sem er eitthvað sem Fylkiskonur, sem léku með þriggja manna vörn í dag, verða að bæta.

„Við ætluðum að reyna að loka á fyrirgjafirnar hjá þeim en það tókst ekki í dag. Stjarnan er með góða leikmenn sem sækja upp kantana og við misstum aðeins einbeitinguna í tvö skipti sem er nóg á móti góðu liði eins og Stjörnunni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert