„Stig sem telur í toppbaráttunni“

KR og Breiðablik gerðu markalaust jafntefli í kvöld og Stefán …
KR og Breiðablik gerðu markalaust jafntefli í kvöld og Stefán Logi Magnússon telur að stigið komi að góðum notum í toppbaráttunni. mbl.is / Þórður A.

Stefán Logi Magnússon, markvörður KR, varði nokkrum sinnum meistaralega þegar KR og Breiðablik gerðu markalaust jafntefli í 13. umferð Pepsi deildar karla í knattspyrnu á Alvogen-vellinum í kvöld. Stefán Logi var þó lítillátur í samtali við mbl.is eftir leikinn í kvöld og sagði samherja sína eiga ríkan þátt í að halda markinu hreinu. 

„Það telja öll stig í baráttunni um titilinn. Breiðablik eru með okkur í toppbaráttunni og það var alveg vitað að þetta yrði erfiður leikur. Mér fannst við hafa getað fylgt skipulaginu aðeins betur síðasta korterið, en annars spiluðum við vel í leiknum fannst mér.“

„Þeir settu leikmenn inn á sem eru með mikil gæði og strákarnir eiga heiður skilinn fyrir baráttuna og vinnuframlagið í leiknum. Við erum búnir að spila marga leiki á stuttum tíma undanfarið. En við erum í góðu formi og ég er ánægður með að strákarnir sýndu dugnað allan leikinn og það voru engin þreytumerki á liðinu.“

„Strákarnir eiga jafn mikinn heiður og ég ef ekki meiri í að halda markinu hreinu. Þeir leikmenn sem komu inn í dag spiluðu mjög vel og menn kunna sín hlutverk fullkomlega sem er frábært. Það vantaði herslumuninn hjá okkur til þess að ná að skora og tryggja okkur sigurinn. En þetta stig telur mikið í toppbaráttunni og gæti gert gæfumuninn þegar upp er staðið.“ sagði Stefán Logi Magnússon í samtali við mbl.is eftir leikinn í kvöld.   

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert