Toppslagur í Krikanum

Ólafur Jóhannesson, þjálfari Vals, fer á sinn gamla heimavöll í …
Ólafur Jóhannesson, þjálfari Vals, fer á sinn gamla heimavöll í Kaplakrika í dag. mbl.is/Eva Björk

Fjórtánda umferð fer öll fram í Pepsi-deild karla í knattspyrnu í dag. Það er engum blöðum um það að fletta að stórleikur umferðarinnar fer frá í Kaplakrika þar sem Valsarar mæta í heimsókn.

Þeir munu mæta grimmir til leiks eftir slæmt tap á Hlíðarenda gegn Víkingum í síðustu umferð. FH-ingar endurheimtu toppsætið í síðustu umferð með nokkuð naumum sigri gegn Keflavík þar sem þeir gerðu aðeins það sem þeir þurftu til þess að hirða stigin þrjú af botnliðinu. Þeir þurfa að spila betur gegn Val í dag.

Fyrrverandi þjálfarar mætast

KR fer í Grafarvoginn og mætir Fjölnismönnum sem unnu frábæran 4:0 sigur á Fylki í síðustu umferð. Númer eitt, tvö og þrjú hjá Fjölni verður að stöðva Hólmbert Aron Friðjónsson í fremstu víglínu KR-inga. Hann skoraði tvö mörk fyrir þá í undanúrslitunum í bikarnum gegn ÍBV og hefur verið illviðráðanlegur frá því að hann kom til landsins.

Blikar fá botnlið Keflavíkur í heimsókn í Kópavog en verkefni þeirra verður ekki auðvelt. Blikar hafa ekki unnið nema einn leik af síðustu sex í deild og Keflavíkurliðið er búið að styrkja sig mikið í glugganum og var FH-ingum óþægur ljár í þúfu. Það er erfitt að ráða í Keflavíkurliðið en það er nú eða aldrei fyrir Keflvíkinga.

Leikur ÍBV og Fylkis er áhugaverður ef horft er á þjálfara liðanna sem báðir verða á hliðarlínunni gegn sínum gömlu lærisveinum í dag. Ásmundur Arnarsson stýrði Fylki framan af tímabilinu og Eyjamaðurinn Hermann Hreiðarsson tók við af honum. Ef Fylkismenn ætla sér í baráttu um Evrópusæti verða þeir að vinna þennan leik, tapi þeir verða þeir mögulega níu stigum frá Evrópu. Eyjamenn voru langt frá sínu besta í bikarnum gegn KR á dögunum og þurfa að spila mun betur ætli þeir sér eitthvað gegn Fylki. Þeir þurfa sannarlega á því að halda.

Áfram 100% sigurhlutfall?

Skagamönnum og Víkingum hefur vegnað ágætlega í deildinni að undanförnu. ÍA hefur aðeins tapað einum af síðustu sex og unnið þrjá. Víkingar unnu sinn annan leik í röð í deildinni í fyrsta skipti í sumar en nær Milos Milojevic að halda 100% sigurhlutfalli sínu áfram einn sem aðalþjálfari Víkinga?

Leiknismenn hafa ekki unnið leik í deildinni frá því í maí og töpuðu gríðarmikilvægum leik í síðustu umferð gegn ÍA á Akranesi. Þeir fá Íslandsmeistara Stjörnunnar í heimsókn í Breiðholtið. Garðbæingar vonast til þess að vera loksins komnir í gang eftir góðan sigur gegn ÍBV en Stjörnumenn unnu síðast tvo leiki í röð í deildinni í 1. og 2. umferð.

peturhreins@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert