Feginn að Guðjón var ekki lengur inná

Freyr Alexandersson, annar þjálfari Leiknis, sagði eftir leikinn við Blika, sem endaði 0:0, að hann hefði verið feginn að Guðjón Pétur Lýðsson hafi ekki lengur verið inná vellinum. Hann trúði ekki sínum eigin augum þegar dæmt var víti á 94 mínútu.

„Við vorum alveg skipulagðir fyrstu 25 mínúturnar en það var misheppnað. Við fórum í hápressu og ætluðum að koma þeim á óvart, það gekk upp og þeir spiluðu okkur sundur og saman. Fengu færi og Eyjólfur heldur okkur á floti. Þá förum við í plan B og náum að klára hálfleikinn vel. Síðan nýttum við hálfleikinn og endurskipulögðum okkur, það gekk.“

Uppleggið hjá Leikni var að stoppa Kristinn Jónsson. Ólafur Hrannar hljóp og aðstoðaði Eirík Inga sem var í bakverðinum. Ólafur Hrannar gerði það alveg ofboðslega vel. Varnarlega var hann magnaður. Davíð og Freyr geta verið stoltir af því að stöðva Kristinn því það eru margir aðrir þjálfarar sem hafa reynt en ekki tekist.
„Það gekk fullkomlega að stoppa Kristinn. Óli Hrannar er eitt stykki ótrúlegur maður. Það eru ekki allir tilbúnir í þetta hlutverk. Hann gerir allt fyrir liðið og þess vegna er hann fyrirliði liðsins. Við erum þakklátir að eiga leikmenn eins og hann. Hann og Kristinn eru örugglega að fara saman í Smáralind núna."

Um vítið sagði Freyr. „Ég hugsaði að þetta væri ekki víti og trúði ekki mínum eigin augum. Ákvað að spyrja fjórða dómarann sem sagði að þetta hefði verið víti. Ég trúði þessu ekki, ég ætla ekkert að halda öðru fram. Púlsinn fór ábyggilega yfir 200 en ég var feginn að Guðjón Pétur var ekki lengur inná.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert