„Við vorum helvíti nálægt því“

Ólafur Jóhannesson var ánægður með spilamennsku sinna manna í kvöld.
Ólafur Jóhannesson var ánægður með spilamennsku sinna manna í kvöld. mbl.is/Eva Björk

Ólafur Jóhannesson, þjálfari Vals, var sæmilega sáttur eftir 2:2 jafntefli liðsins gegn KR í 18. umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu í Vesturbænum í kvöld. Bikarmeistararnir sigla lygnan sjó í 4. sæti deildarinnar eftir leikinn.

„Mér fannst þetta hörkuleikur og er sáttur við stigið. Auðvitað vorum við nálægt því að ná þremur en þeir lágu svolítið á okkur í restina,“ sagði Ólafur við mbl.is að leik loknum. Almarr Ormarsson jafnaði leikinn fyrir KR í 2:2 í uppbótartíma leiksins.

Hann var ánægður með spilamennsku sinna manna í kvöld en bæði mörk Valsmanna komu eftir fallega spilkafla. „Ég var mjög ánægður með mitt lið, við spiluðum fínan leik. Við vörðumst vel og lokuðum vel á KR og lentum ekki í teljandi vandræðum með þá fyrr en undir lokin.“

Ólafur er ekki á því að Valsarar séu komnir með eitthvert tak á þeim röndóttu en þeir hafa sigrað KR tvisvar í sumar og voru nálægt þriðja sigrinum í kvöld „Þessir leikir á móti KR hafa verið skemmtilegir og ég held að þessi hafi verið frábær skemmtun fyrir áhorfendur og leikmenn. Það var mikið tekist á, heiðarlega, og þetta var bara fínn leikur.“

Honum fannst sínir menn alveg eins eiga skilið að vinna þennan leik. „Við vorum helvíti nálægt því og þá er maður svolítið spældur. KR-ingarnir eru með frábært fótboltalið og þeir pressuðu djöfull á okkur í restina, þannig að þetta datt inn hjá þeim þarna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert