„Allir ótrúlega rólegir“

Íslensku leikmennirnir fagna sigrinum innilega í kvöld. Eiður Smári er …
Íslensku leikmennirnir fagna sigrinum innilega í kvöld. Eiður Smári er þriðji frá hægri, með fyrirliðabandið - tók við því, eftir að Aron Einar fór af velli. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

„Útisigur á móti Hollandi er ekki eitthvað sem gerist á hverju ári!“ sagði Eiður Smári Guðjohnsen eftir sigurinn í kvöld, glaður í bragði, en hann sagðist ekki síður vera ánægður með hvernig sigurinn vannst. Leikurinn í kvöld hefði spilast eins og best var á kosið.

Eiður sagði þrjú atriði hafa skipt sköpum í leiknum. „Leikurinn þróaðist þannig, miðað við þessi atvik, að við fengum aukið sjálfstraust; Robben fór útaf meiddur, en hann skiptir gríðarlega miklu máli fyrir hollenska liðið og það var því plús fyrir okkur, rauða spjaldið, og svo auðvitað vítið. Mér skilst að bæði þau atriði hafi verið 100% rétt hjá dómaranum."

Eiður Smári sagðist ekki síst ánægður með þá staðreynd að Ísland væri mjög verðskuldað í efsta sæti riðilsins. Því réði engin heppni heldur góð frammistaða liðsins. „Nú förum við upp á hótel og kíkjum á stigatöfluna, þá átta menn sig líklega vel á því hvað var að gerast hérna. Mér finnst allir alveg ótrúlega rólegir yfir þessu - við vorum nánast að tryggja okkur inn á EM!“

Eiður tók þó skýrt fram að ekki mætti líta á það sem formsatriði að komast í úrslitakeppnina. „Það þarf að klára hlutina. Við erum búnir að koma okkur í þessa stöðu, sem við eigum fyllilega skilið og nú fáum við þrjú tækifæri til að klára dæmið. Og við eigum auðvitað ekkert að vera að bíða með það heldur klára verkefnið á sunnudaginn því þá verður hægt að fara að undirbúa framhaldið sem fyrst.“

Eiður hefur lengi verið í eldlínunni og segir árangurinn nú stærstu stund í íslenskri knattspyrnu, og merkilegan í alþjóðlegum fóbolta. „Það hafa ekki margir búist við þessu en við höfum sýnt í þessum riðli hvað í okkur býr. Ég held að enginn hefði orðið stór undrandi ef við hefðum gert jafntefli hérna en svo þróaðist leikurinn þannig að við náðum í þrjú stig! Maður hefur séð skrýtnari hluti gerast í fótbolta en fyrir okkur, litla Ísland, er þetta auðvitað stórkostlegt,“ sagði Eiður Smári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert