Með annan fótinn til Frakklands (myndasyrpa)

Íslendingar eru komnir með annan fótinn á Evrópumótið í fótbolta í Frakklandi næsta sumar, eftir frábæran 1:0 sigur á Hollendingum í Amsterdam í kvöld. Hvern hefði órað fyrir þessu? Hugsanlega Lars, Heimi og strákana en varla mikið fleiri. En stigataflan talar sínu máli; Ísland þarf aðeins eitt stig úr þremur leikjum til þess að komast í fyrsta skipti í úrslitakeppni stórmóts.

Stemningin var mögnuð á Dam torginu í miðborg Amsterdam í gær og í dag, en þar kom stór hópur stuðningsmanna Íslands saman og skemmti sér konunglega. Ekki var stemningin síðri á Amsterdam ArenA í kvöld eins og nærri má geta; heimamenn voru súrir á svip þegar leið á leikinn og margir farnir að naga neglurnar, en íslenski hópurinn söng látlaust frá því flautað var til leiks og þar til löngu var búið að flauta til leiksloka. Margir líklega farnir að huga að því að skipuleggja sumarfríið á næsta ári og jafnvel frönskunámskeið í vetur ...

Skapti Hallgrímsson, blaðamaður og ljósmyndari Morgunblaðsins, var á leiknum í Amsterdam ArenA í kvöld og fangaði stemninguna í máli og myndum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert