„Förum með sama hugarfar í alla leiki“

Elías Már Ómarsson er hér fyrir miðri mynd.
Elías Már Ómarsson er hér fyrir miðri mynd. Ómar Óskarsson

Elías Már Ómarsson, leikmaður Vålerenga og íslenska U-21 árs landsliðsins er spenntur fyrir leik Íslands og Frakklands sem fram fer á Kópavogsvelli klukkan 14.00 á morgun. Þetta er annar leikur íslenska liðsins í undankeppni Evrópumóts landsliða sem fram fer í Frakklandi árið 2017.

Ísland hóf undankeppna af miklum krafti með 3:0 sigri á Makedóníu á Vodafone-vellinum í sumar. Elías Már skoraði fyrsta mark Íslands í þeim leik og lék afar vel í leiknum. 

„Þessi leikur leggst virkilega vel í okkur og við erum afar spenntir fyrir leiknum. Frakkar eru með sterkt lið og við erum vel undirbúnir fyrir þennan leik. Leikmenn franska liðsins spila margri hverjir í stórum liðum og þetta verður verðugt verkefni,“ sagði Elías Már Ómarsson í samtali við mbl.is í dag.

„Við erum einnig með mjög gott lið og ég held að við munum eiga í fullu tré við þá og gætum alveg náð úrslitum, það er allavega stefnan. Við unnum fyrsta leikinn 3:0 á móti sterku liði og það veitir okkur sjálfstraust í þessum leik og sýnir okkur að það er allt hægt ef við spilum á fullri getu. Við vitum alveg hvað við getum og við förum í alla leiki með því hugarfari að við ætlum að vinna leikinn,“ sagði Elías Már enn fremur.

Elías Már og félagar hans í Vålerenga léku æfingaleik gegn Real Madrid fyrr i sumar og Elías segi að það hafi verið mjög skemmtilega upplifun. 

„Það var geðveik upplifun. Það var frekar skrýtið að labba inn á völlum með þessum þekktu nöfnum. Ég lenti nokkrum sínum í einvígum við Marcelo, Gareth Bale og Raphael Varane og það var mjög gaman að fá að takast á við þá,“ sagði Elías Már að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert