Gylfi markahæstur í A riðlinum

Gylfi Þór Sigurðsson fagnar hér sigri Íslands með Ólafi Inga …
Gylfi Þór Sigurðsson fagnar hér sigri Íslands með Ólafi Inga Skúlasyni og í baksýn er Alfreð Finnbogason. AFP

Gylfi Þór Sigurðsson, leikmaður íslenska landsliðsins í knattspyrnu, skoraði sigurmark Íslands þegar liðið sigraði Holland í undankeppni Evrópumóts landsliða á Amsterdam ArenA í gær. Mark Gylfa Þórs í gær gerir hann að markahæsta leikmanni A riðilsins í undankeppni Evrópumóts landsliða.  

Pólverjinn Robert Lewandowski, leikmaður Bayern München, er markahæstur í undankeppni Evrópumóts landsliða sem fram fer í Frakklandi næsta sumar með sjö mörk. Næstir á eftir Lewandowski koma Bosníumaðurinn Edin Dzeko, Englendingurinn Danny Welbeck og Walesverjinn Gareth Bale, en þeir hafa gert sex mörk hver.

Þá hafa sjö leikmenn skorað fimm mörk, líkt og Gylfi Þór Sigurðsson. Þeirra á meðal eru markaskorararnir Thomas Müller, Zlatan Ibrahimovic, Cristiano Ronaldo og Wayne Rooney.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert