„Verðum að vinna heimaleikina“

Aron Elís Þrándarson átti góðan leik þegar Ísland mætti Makedóníu …
Aron Elís Þrándarson átti góðan leik þegar Ísland mætti Makedóníu í fyrstu umferðinni. Eggert Jóhannesson

Aron Elís Þrándarson, leikmaður Aalasund og ís­lenska U-21 árs landsliðsins segir að leikmenn íslenska liðsins séu hvergi bangnir fyr­ir leik Íslands og Frakk­lands sem fram fer á Kópa­vogs­velli klukk­an 14.00 á morg­un.

Þetta er ann­ar leik­ur ís­lenska liðsins í undan­keppni Evr­ópu­móts landsliða sem fram fer í Frakklandi árið 2017. Ísland fór vel af stað í undankeppninni með 3:0 sigri á Makedóníu á Vodafone-vellinum og Aron Elís spilaði vel í þeim leik. 

„Við byrjuðum þennan riðil með stæl og nú er bara að fylgja því eftir í þessum tveimur leikjum sem framundan eru. Fyrst er það stórleikur á móti sterku liði Frakka sem við hlökkum mikið til að takast á við,“ sagði Aron Elís Þrándarson í samtali við mbl.is í dag. 

„Maður þekkir einhverja leikmenn liðsins, en við megum ekkert vera að pæla allt of mikið í þeim og einbeita okkur fyrst og fremst að okkur sjálfum. Við megum alls ekki bera of mikla virðingu fyrir og taka vel á þeim. Við erum búnir að skoða þá lítillega og skoðum þá svo enn betur í kvöld. Við verðum þá búnir að finna einhverja veikleika í franska liðinu sem að við herjum á,“ sagði Aron Elís Þrándarson enn fremur.

„Við förum klárlega í þennan leik til þess að vinna hann. Það kemur ekkert annað til greina. Við erum á heimavelli og ef að við ætum upp úr þessum riðli verðum við að vinna heimaleikina. Við erum allir klárir í slaginn og vonandi spilum við jafn vel í leiknum á morgun og við gerðum gegn Makedóníu,“ sagði Aron Elís Þrándarson að lokum.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert