Fjögur á fjórum árum

Viðar Örn Kjartansson í búningi Malmö.
Viðar Örn Kjartansson í búningi Malmö. @Malmo_FF

Viðar Örn Kjartansson, landsliðsmaður í knattspyrnu, leikur í sínu fjórða landi á fjórum árum eftir að hann samdi í gær til þriggja ára við sænska félagið Malmö.

Svíarnir keyptu hann af Jiangsu Suning í Kína á 3 milljónir sænskra króna, um 46 milljónir ísl. króna, samkvæmt sænskum fjölmiðlum, og hann yfirgefur Kína eftir eitt ár þar en Viðar átti tvö ár eftir af samningi sínum. Hann er sagður einn launahæsti leikmaðurinn í Svíþjóð eftir þessa samningsgerð.

Viðar hefur verið markahæsti leikmaður sinna liða fimm ár í röð. Fyrst árin 2011 og 2012 með Selfyssingum, þá 2013 með Fylki, 2014 með Vålerenga þegar hann varð markakóngur norsku úrvalsdeildarinnar og 2015 með Jiangsu í Kína.

Í Malmö er Viðar kominn í eitt stærsta félag Norðurlanda, sem spilaði í Meistaradeild Evrópu fyrir áramótin. Malmö varð sænskur meistari 2014 en varð að sætta sig við fimmta sætið á síðasta ári.

Viðar er þriðji leikmaðurinn sem Malmö fær í sínar raðir eftir að Daninn Allan Kuhn var ráðinn þjálfari liðsins fyrr í þessum mánuði og ljóst er að félagið ætlar að nýta hagnaðinn af Meistaradeildinni í vetur til að koma sér aftur á toppinn í Svíþjóð.

Kári Árnason, félagi Viðars úr íslenska landsliðshópnum, er í liði Malmö og var af og til fyrirliði eftir að hann kom til félagsins frá Rotherham síðasta sumar. Áður hafa fjórir íslenskir leikmenn spilað með aðalliði Malmö en það eru Ólafur Örn Bjarnason, Sverrir Sverrisson, Guðmundur Viðar Mete og Emil Hallfreðsson.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert