Framherji Vals tæpur fyrir fyrsta leik

Nikolaj Andreas Hansen, leikmaður Vals, í meðhöndlun við meiðslum sínum …
Nikolaj Andreas Hansen, leikmaður Vals, í meðhöndlun við meiðslum sínum eftir leikinn í meistarakeppni KSÍ í gær við FH. Eggert Jóhannesson

Nikolaj Andreas Hansen, sóknarmaður Vals, fór meiddur af velli í leik liðsins gegn FH í meistarakeppni KSÍ í gærkvöldi. Sigurbjörn Örn Hreiðarsson, aðstoðarþjálfari Vals, telur hæpið að Nikolaj verði klár í tæka tíð fyrir fyrsta leik Vals í Pepsi-deild karla á sunnudaginn kemur.

„Nikolaj sneri sig á ökkla og bólgnaði strax frekar mikið. Við teljum að um tognun sé að ræða og hann fór í hefðbundna meðhöndlun við slíkum meiðslum í gærkvöldi. Nikolaj á svo tíma hjá sjúkraþjálfara í dag og þá kemur betur í ljós hvers eðlis meiðslin. Mín reynsla að svona tognunum segir mér að það sé ólíklegt að hann verð með á sunnudaginn,“ sagði Sigurbjörn í samtali við mbl.is í dag.

Valur mætir Fjölni í fyrstu umferð Pepsi-deildar karla á Valsvellinum á sunnudaginn kemur og Sigurbjörn segir að það sé mikil spenna í herbúðum Vals fyrir þeim leik.

„Við erum afar spenntir fyrir því að hefja tímabilið eftir langt undirbúningstímabil. Það verður gaman að mæta góðu Fjölnisliði og spennandi að spila á nýja gervigrasinu okkar við toppaðstæður á heimavellinum okkar. Það eru allir klárir í slaginn fyrir utan Nikolaj og mikill hugur í leikmannahópnum,“ sagði Sigurbjörn um leikinn við Fjölni sem framundan er.   

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert