Ætlar að skoða nokkra fossa í sumar

Carillo og Óskar Örn Ólafsson, formaður knattspyrnudeildar ÍBV, þegar Carrillo …
Carillo og Óskar Örn Ólafsson, formaður knattspyrnudeildar ÍBV, þegar Carrillo skrifaði undir samning við ÍBV í febrúar. Ljósmynd/ÍBV

Derby Carrillo, markvörður ÍBV, var gríðarlega ánægður eftir að ÍBV sigraði ÍA, 4:0, í fyrstu umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu í Vestmannaeyjum í dag.

„Þetta eru frábær úrslit. Fyrsti leikurinn er alltaf erfiður, þetta er ekki undirbúningstímabilið lengur. Við börðumst og náðum í frábær úrslit fyrir stuðningsmennina. Ég er ánægður en þetta var bara einn leikur og við verðum að halda áfram á sömu braut,” sagði Carrillo eftir leikinn í dag.

Carrillo vakti athygli fyrir hvað hann kastaði boltanum langt fram völlinn í leiknum. Þriðja mark Eyjamanna kom upp úr einu slíku þegar hann grýtti boltanum á Sindra Snæ Magnússon, sem skoraði eftir góðan sprett. Sjálfur var markvörðurinn hógvær þegar hann var spurður út í köstin:

„Það var gott að leikmenn voru fljótir að sýna sig og spila sig fría. Ég get ekki kastað án þess að leikmenn hreyfi sig hratt og spili sig fría.”

Carrillo er ánægður með lífið í Eyjum og er ánægður með að snjórinn er farinn. „Ísland er fallegt. Þetta er búið að vera frábært og núna er snjórinn farinn. Ég ætla að skoða nokkra fossa og halda áfram að njóta lífsins,” sagði landsliðsmarkvörður El Salvador að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert