„Við hefðum þurft að gera betur“

Bjarni Guðjónsson og Indriði Sigurðsson ræða málin á KR-vellinum í …
Bjarni Guðjónsson og Indriði Sigurðsson ræða málin á KR-vellinum í kvöld. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Bjarni Guðjónsson, þjálfari KR, sagðist ekki vera sáttur við eitt stig á heimavelli þegar mbl.is tók hann tali að loknu markalausu jafntefli gegn Víkingi í Frostaskjóli í kvöld.

„Nei ég er það ekki. Á heimavelli viljum við taka öll stigin, sama hvenær í mótinu það er,“ sagði
Bjarni en neitaði því ekki að aðstæðurnar hefði haft sitt að segja.

„Já en ekki bara fyrir okkur heldur fyrir Víkingana sömuleiðis. Aðstæðurnar eru því engin afsökun fyrir því hvernig leikurinn fór. Aðstæðurnar versnuðu í síðari hálfleik því þá versnaði völlurinn smám saman og vindurinn jókst. Ekki hjálpaði það liðunum heldur. Þetta er alltaf sama sagan á hverju ári. Þegar líður á undirbúningsmótin þá fara leikirnir að skipta máli eins og úrslitaleikur í Lengjubikarnum. En það er ekki það sama og þegar mótið byrjar. Aðstæðurnar eru allt aðrar inni í Egilshöllinni þar sem þú veist hvernig boltinn rúllar og enginn vindur er. Svo koma menn út í deildarleiki þar sem erfitt er að hreyfa boltann með jörðinni. Menn þurfa að lyfta boltanum aðeins upp en þetta eru aðstæðurnar sem við búðum við núna og við hefðum þurft að gera betur.“

KR lék án þeirra Kennie Chopart og Finns Orra Margeirssonar og þá sat Pálmi Rafn Pálmason á varamannabekknum en allir eru þeir meiddir. Spurður um hvernig staðan sé á þeim svaraði Bjarni því til að þeir gætu tekið þátt í næstu leikjum miðað við hvernig útlitið er. „Kennie hefur æft vel og byrjar að æfa með liðinu á morgun. Hann ætti að koma á flugi inn í hópinn hjá okkur. Pálmi hóf æfingar fyrir viku síðan eftir handleggsbrotið. Við vitum ekki nákvæmlega hvenær hann má spila en væntanlega verður það í næsta eða þarnæsta leik. Sama má segja um Finn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert