Áföllin dynja á Þórsurum

Þórsarar fagna marki í fyrra. Frá vinstri: Gunnar Örvar Stefánsson, …
Þórsarar fagna marki í fyrra. Frá vinstri: Gunnar Örvar Stefánsson, Jónas Björgvin Sigurbergsson, Ármann Pétur Ævarsson, Jóhann Helgi Hannesson og Sveinn Elías Jónsson. mbl.is/Skapti

Þórsarar hafa orðið fyrir hrinu áfalla nú þegar keppnistímabilið í knattspyrnunni er handan við hornið.

Þór og Huginn mættust í Boganum um helgina í síðasta æfingaleik undirbúningstímabilsins. Þar fóru tveir leikmenn Þórs meiddir af velli og er óttast að um alvarleg meiðsli séu að ræða. Orri Sigurjónsson er talinn hafa brotið bein í fæti á ný, en hann var að koma til baka eftir að hafa ristarbrotnað í vetur og átti að vera klár í slaginn í upphafi tímabilsins.

Þá fór Jónas Björgvin Sigurbergsson einnig af velli vegna meiðsla á ökkla eftir að hafa snúið sig illa. Búið er að útiloka að um brot sé að ræða samkvæmt heimildum mbl.is, en óttast er að liðbönd hafi skaddast. Það er ekki komið á hreint ennþá en ef svo væri er ljóst að hann verður frá næstu mánuði.

Þá tognaði Ármann Pétur Ævarsson sömuleiðis, en vonir standa til að hann verði ekki lengi frá. Bakvörðurinn Gísli Páll Helgason fór svo í aðgerð á mjöðm í Bandaríkjunum á dögunum er ljóst er að hann missir allavega af fyrri hluta keppnistímabilsins.

Þór sækir Leikni Reykjavík heim í fyrstu umferð Inkasso-deildarinnar á laugardag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert