„Spila þar sem þjálfarinn biður mig að spila“

Rakel Hönnudóttir fyrirliði Breiðabliks lyftir bikarnum.
Rakel Hönnudóttir fyrirliði Breiðabliks lyftir bikarnum. mbl.is/Golli

Rakel Hönnudóttir lyfti bikar í kvöld sem fyrirliði Breiðabliks en Kópavogsliðið tryggði sér sigur gegn Stjörnunni eftir vítaspyrnukeppni í árlegum leik Íslands- og bikarmeistara síðustu leiktíðar. Lokatölur urðu 4:3 í kulda og trekki í Garðabæ, eftir að leikurinn sjálfur endaði 0:0.

„Það er pínu leiðinlegt að spila í svona aðstæðum en maður verður bara að vera jákvæður og reyna að láta íslenska veðrið ekki pirra sig of mikið,“ sagði Rakel Hönnudóttir fyrirliði Breiðabliks eftir leik.

„Þetta var samt alveg hörkuleikur að mínu mati. Dómarinn leyfði leiknum að fljóta og var ekkert að blása of mikið í flautuna. Manni varð a.m.k. ekki kalt á meðan,“ sagði Rakel og var sammála þeim fullyrðingum blaðamanns að þessi tvö lið yrðu í toppbaráttu í sumar.

„Já, það held ég. Ég hef ekki séð Valsliðið spila ennþá en miðað við hvernig þær líta út á hinum fræga pappír, þá ættu þær að vera í baráttunni með Stjörnunni, Breiðabliki og jafnvel fleiri liðum.“

Rakel lék lengstum í fremstu víglínu í þessum leik en leikur alla jafna í hægri bakvarðastöðunni með íslenska landsliðinu. Hvar skyldi þessi fjölhæfi leikmaður helst vilja spila á vellinum?

„Uppáhaldsstaðan mín er kannski fremst á miðjunni en ég bara spila þar sem þjálfarinn lætur mig spila. Það er ekki flóknara en það,“ sagði Rakel Hönnudóttir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert