Afturelding og Grótta unnu stórleikina - snjóslagur fyrir norðan

Liðsmenn Völsungs og Magna frá Grenivík takast í hendur í …
Liðsmenn Völsungs og Magna frá Grenivík takast í hendur í snjókomunni fyrir fyrsta leik Íslandsmótsins í knattspyrnu í 2. deild. Ljósmynd/Twitter/Gísli Gunnar Odd.

2. deild karla í knattspyrnu hófst í kvöld með látum með tveimur stórleikjum og einum nýliðaslag fyrir norðan. Afturelding vann KV 3:1 í Vesturbæ, Grótta vann ÍR 2:0 í Breiðholtinu og nýliðar Völsungs og Magna skildu jafnir 1:1.

Í Vesturbæ Reykjavík tók KV á móti Aftureldingu. Þar kom Wentzel Steinarr Ragnarsson Kamban gestunum úr Mosfellsbæ á bragðið á 32. mínútu. Á 51. mínútu tvöfaldaði enski miðjumaðurinn Nik Anthony Chamberlain forystu gestanna úr Mosfellsbæ með marki úr vítaspyrnu, 2:0, en hann gekk í raðir félagsins fyrir tímabilið eftir að hafa spilað með Fjarðabyggð og Hugin undanfarin ár.

Aðeins tveimur mínútum síðar minnkaði Njörður Þórhallsson metin fyrir KV, 2:1. Einar Bjarni Ómarsson í liði KV fékk hins vegar að líta rautt spjald fyrir klaufalega sólatæklingu átta mínútum fyrir leikslok.

Liðsmenn Aftureldingar nýttu sér liðsmuninn og Kristófer Örn Jónsson rak smiðshöggið á sterkan 3:1 sigur liðsins.

Í Breiðholtinu vann Grótta góðan sigur á ÍR, 2:0. Agnar Guðjónsson kom Gróttu yfir á 27. mínútu leiksins en mark hans var einkar glæsilegt skot upp í samskeytin, en Gróttumenn bættu við öðru marki í síðari hálfleik úr vítaspyrnu.

Í nýliðslagnum í snjónum norður á Húsavík skildu Völsungur og Magni frá Grenivík jöfn, 1:1.

Arnþór Hermannsson kom heimamönnum yfir en á 73. mínútu fékk Bergur Jónmundsson að líta sitt annað gula spjald. Aðeins þremur mínútum síðar nýttu Magnamenn sér liðsmuninn og jöfnuðu metin og 1:1 lokatölur.

Fólk var missátt með aðstæður en gervigrasið á Húsavíkurvelli kom sér í það minnsta vel.

Hér má sjá aðstæður leiksins í kvöld á myndskeiði.

Meðal annars er stuðst við upplýsingar um markaskorara og rauð spjöld frá vefsíðunni Úrslit.net.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert