Þriggja liða slagur um sætin í úrvalsdeildinni?

Keflavík og Leiknir R. féllu bæði niður úr Pepsi-deildinni í …
Keflavík og Leiknir R. féllu bæði niður úr Pepsi-deildinni í fyrra. mbl.is/Styrmir Kári

Þegar horft er yfir liðin tólf sem leika í 1. deild karla í fótboltanum í sumar, það sem þau hafa gert í vetur og hvernig breytingum þau hafa tekið frá síðasta ári, er hægt að komast að þeirri niðurstöðu að deildin verði þrískipt að þessu sinni.

Keflavík, Leiknir úr Reykjavík og KA berjist um sætin tvö í úrvalsdeildinni.

Þór, Grindavík, Haukar, HK og Fram verði á lygna sjónum á miðsvæði deildarinnar.

Fjarðabyggð og Selfoss verði í fallbaráttu ásamt nýliðum Hugins á Seyðisfirði og Leiknis á Fáskrúðsfirði.

Keflvíkingar verða með reyndasta lið deildarinnar þar sem Jóhann Birnir Guðmundsson, Haraldur Freyr Guðmundsson, Guðjón Árni Antoníusson, Hörður Sveinsson og Magnús S. Þorsteinsson leika allir áfram og Jónas Guðni Sævarsson snýr aftur á heimaslóðir. Þessir kappar eiga að baki á annað þúsund deildaleiki á ferlinum. Hólmar Örn Rúnarsson missir hinsvegar af tímabilinu með slitið krossband. Þorvaldur Örlygsson er kominn til Keflavíkur og tók þrjá sterka menn með sér frá HK, þar á meðal markvörðinn Beiti Ólafsson.

Leiknir R. verður með sama kjarna og fékk ómetanlega reynslu af úrvalsdeild í fyrra. Sindri Björnsson og Hilmar Árni Halldórsson fóru þó í Val og Stjörnuna en í staðinn er kominn Brasilíumaður og lánsmenn með reynslu úr efstu deild. Kristján Guðmundsson tók við Leikni og verður í fyrsta sinn í þrettán ár með lið utan efstu deildar.

KA hefur leynt og ljóst stefnt á úrvalsdeildarsæti síðustu árin og missti naumlega af því í fyrra. KA-menn hafa haldið áfram að styrkja sig og náð í Guðmann Þórisson, Almarr Ormarsson og Hallgrím Mar Steingrímsson, allt öfluga úrvalsdeildarleikmenn. Það verða mikil vonbrigði á Brekkunni í haust ef KA, með Srdjan Tufegdzic við stjórnvölinn, bindur ekki enda á tólf ára dvöl sína í 1. deild.

Nánar er fjallað um Inkasso-deildina í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert