Blikar unnu tíu Víkinga

Gary Martin, Alfons Sampsted og Alex Freyr Hilmarsson horfa á …
Gary Martin, Alfons Sampsted og Alex Freyr Hilmarsson horfa á eftir boltanum í leiknum í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Breiðablik sigraði Víking R., 1:0, í lokaleik 3. umferðar Pepsi-deildar karla í knattspyrnu í kvöld en leikið var á Kópavogsvelli. Víkingar eru enn án sigurs og með eitt stig á meðan Blikar eru komnir með tvo sigra og 6 stig.

Víkingar byrjuðu leikinn í kvöld af krafti og ljóst að þeir ætluðu sér að pressa þungt fyrstu mínúturnar, sem gekk ágætlega. Gary Martin átti fyrsta skot leiksins sem Gunnleifur Gunnleifsson varði nokkuð örugglega. 

Sóknarþungi Víkings varði þó ekki lengi og tóku Blikar við sér eftir tíu mínútna leik. Liðið skoraði svo sigurmark leiksins á 15. mínútu er Andri Rafn Yeoman átti fyrirgjöf hægra megin úr teignum á fjærstöng þar sem Atli Sigurjónsson var mættur til þess að stanga boltann í netið.

Víkingar fengu dauðafæri nokkrum mínútum síðar er boltinn kom fyrir markið en Arnþór Ingi Kristinsson og Erlingur Agnarsson klúðruðu þá rúmlega meter frá markinu. Elfar Freyr Helgason átti þá frábært skot af 20 metrunum stuttu síðar en Róbert Örn Óskarsson varði meistaralega í markinu.

Það sauð allt upp úr 38. mínútu leiksins. Gary Martin féll þá innan teigs og vildi fá víti en fékk ekki. Leikmenn Víkings hópuðust upp að dómara leiksins en það bar lítinn árangur. Viktor Bjarki Arnarsson fékk að líta gult spjald fyrir kjaftbrúk og var fokinn af velli mínútu síðar fyrir hættulega tæklingu.

Víkingar voru öflugir í síðari hálfleiknum þrátt fyrir að vera manni færri. Liðið spilaði afar vel og var nálægt því að jafna þegar um það bil tuttugu mínútur voru eftir en þá skaut Vladimir Tufedgzic yfir eftir hornspyrnu.

Jonathan Glenn var svo nálægt því að gulltryggja sigur Blika undir lokin en Róbert Örn varði meistaralega frá honum úr teignum. Lokatölur í kvöld 1:0 fyrir Breiðablik sem er komið með 6 stig eftir fyrstu þrjár umferðirnar á meðan Víkingur er með 1 stig úr fyrstu þremur umferðunum.

Breiðablik 1:0 Víkingur R. opna loka
90. mín. Jonathan Glenn (Breiðablik) á skot sem er varið Róbert Örn ver meistaralega frá Jonathan Glenn. Þarna gátu Blikar endanlega lokað þessu.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert