Grátlegt að klúðra þessu

Davíð Þór Viðarsson.
Davíð Þór Viðarsson. mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir

Davíð Þór Viðarsson, fyrirliði FH-inga, var svekktur eftir jafntefli sinna manna gegn Stjörnunni á grasteppinu í Garðabæ í kvöld en liðin skildu jöfn, 1:1, þar sem Stjörnumönnum tókst að jafna metin undir lok leiksins.

„Það var grátlegt að hafa klúðrað þessu niður í jafntefli þarna undir lokin. Mér fannst við hafa góð tök á leiknum en þeir lágu samt svolítið á okkur undir lokin. Ég er svekktur að hafa ekki náð að gera út um leikinn því við fengum nokkur góð upphlaup í seinni hálfleik þar sem síðasta sendingin klikkaði og við oft of óþolinmóðir og á köflum kærulausir,“ sagði Davíð Þór en eftir fimm umferðir eru Stjörnumenn stigi á undan FH og Víkingi Ólafsvík.

„Við og Stjarnan erum þau lið sem hafa verið að spila besta fótboltann í þessum fyrstu fimm umferðum og leikurinn var ágætlega spilaður. Grasið þornaði þegar líða tók á leikinn og hraðinn var kannski ekki alveg eins mikill fyrir vikið.

Við erum komnir upp í annað sætið á markatölu og við erum hægt og bítandi að fikra okkur upp töfluna. En stig á erfiðum útivelli er eitthvað sem maður þarf að virða og fram undan er erfiður leikur í deildinni gegn Víkingi Ólafsvík.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert