„Hefðum getað stolið sigrinum“

Stjörnumenn fagna marki.
Stjörnumenn fagna marki. mbl.is/Golli

„Ég er bara mjög sáttur við þetta stig sem við fengum enda jöfnuðum við undir lok leiksins,“ sagði Baldur Sigurðsson, fyrirliði Stjörnunnar, við mbl.is eftir 1:1 jafntefli við FH í lokaleik 5. umferðar Pepsi-deildarinnar í knattspyrnu í Garðabæ í kvöld.

„Við komum mjög ákveðnir til leiks og þetta gekk upp sem við ætluðum að gera. Við ætluðum að pressa þá framarlega en við vorum ekki nógu rólegir að nýta þær stöður sem við komum okkur í. En síðan urðum við of rólegir og það kom langur kafli sem FH-ingar höfðu undirtökin. En við sýndum gríðarlega góðan karakter með því að ná að jafna metin og við vorum líklegri til að stela sigrinum undir lokin,“ sagði Baldur.

Stjörnumenn eru í toppsæti deildarinnar eftir fimm umferðir með 11 stig en FH og Víkingur Ólafsvík fylgja fast á eftir með 10 stig.

„Ég held að við getum verið sáttir með stigafjöldann eftir þessar fyrstu fimm umferðir. Við erum búnir að fara á erfiða útivelli og erum enn þá taplausir. Ég vanmet ekki næstu leiki okkar. Það eru mjög erfiðir leikir fram undan og bikarinn inn á milli. Það er því mikið álag og þá er gott að hafa stóran hóp eins og mönnum hefur verið tíðrætt um að við séum með. Það er frábært að eiga menn klára á bekknum og koma inn á með krafti í stað þess að vera í fýlu. Þannig er samsetningin á hópnum okkar,“ sagði Baldur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert