Við viljum alltaf vinna

Þorsteinn Halldórsson, þjálfari Breiðabliks.
Þorsteinn Halldórsson, þjálfari Breiðabliks. mbl.is/Eva Björk

Þorsteinn Halldórsson, þjálfari Breiðabliks, var heldur daufur eftir 1:1 jafntefli Breiðabliks og Þórs/KA í Pepsi-deild kvenna í knattspyrnu í kvöld. Íslandsmeistararnir úr Kópavoginum eru með fimm stig eftir þrjár umferðir.

„Mér fannst þetta jafn leikur, baráttuleikur og það var lítið um færi. Við viljum alltaf vinna þannig að við erum ekki sátt. Þetta er bara niðurstaðan og við verðum að taka þetta stig og halda áfram,“ sagði Þorsteinn við mbl.is eftir leikinn í kvöld.

Breiðablik gerði jafntefli við nýliða FH í síðustu umferð og byrjunin hefur því kannski ekki verið eins og meistararnir hefðu óskað sér. Þorsteinn segist þó ekki hafa teljandi áhyggjur, þótt alltaf sé betra að vinna leiki:

„Auðvitað erum við ekkert sátt við jafntefli í síðustu tveimur leikjum, langt því frá. Við getum hins vegar ekkert breytt því í dag. Það er bara næsti leikur og það eitt skiptir máli,“ sagði Þorsteinn en Breiðablik sækir Selfoss heim í 4. umferð deildarinnar á laugardag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert