Ekkert krydd í Kópavogi í gærkvöldi

Sandra Stephany Gutier­rez á ferðinni gegn Blikum í gærkvöld.
Sandra Stephany Gutier­rez á ferðinni gegn Blikum í gærkvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Það var ekki boðið upp á flugeldasýningu þegar Breiðablik tók á móti Þór/KA í Pepsi-deild kvenna í knattspyrnu í gærkvöldi. 1:1 jafntefli varð niðurstaðan í miklum baráttuleik í haustveðrinu sem var á höfuðborgarsvæðinu í gær.

Íslandsmeistararnir úr Kópavoginum skoruðu fyrsta mark leiksins, nánast með fyrsta skoti leiksins. Svava Rós Guðmundsdóttir kom heimastúlkum yfir með skoti eftir sendingu frá Fanndísi Friðriksdóttur. Reyndar skaut Svava í varnarmann, náði boltanum aftur og skoraði þá með góðu skoti, öðru skotinu á markið í leiknum, á 22. mínútu.

Gestirnir frá Akureyri létu markið ekki slá sig út af laginu og jöfnuðu metin á 35. mínútu, Anna Rakel Pétursdóttir. Stehany Mayor kom boltanum á Önnu eftir að Sonný Lára, markvörður Breiðabliks, missti boltanum úr höndunum eftir fyrirgjöf. Fleiri urðu mörkin ekki en hvorugt lið var nálægt því að tryggja sér sigurinn; færin voru af skornum skammti.

Byrjun Breiðabliks á Íslandsmótinu hlýtur að valda þeim talsverðum áhyggjum. Fimm stig eftir þrjá leiki hljómar ekki illa en Íslandsmeistararnir vilja gera betur. Sóknarleikurinn er ekki góður, liðinu tókst ekki að skora gegn FH í síðustu umferð og í gær fékk liðið afskaplega fá færi. Fanndís var sprækust Blika í gær en hún þarf meiri aðstoð. Hún getur ekki gert allt upp á eigin spýtur. Skástu tilraunir Blika, fyrir utan markið, komu eftir að Fanndís fékk boltann aftarlega á vellinum, brunaði að marki og lét vaða.

Fjallað er um leiki gærkvöldsins í Pepsi-deildinni í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert