„Ég sá þetta ekki“

Ólafur Jóhannesson
Ólafur Jóhannesson mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ólafur Jóhannesson var nokkuð léttur eftir baráttusigur Vals á Fjölni í 32 liða úrslitum Borgunarbikarsins í kvöld. Valur vann 1:0 og heldur áfram í næstu umferð. Úrslitin réðust á vítaspyrnu sem Fjölnismenn töldu vafasama í meira lagi.

„Ég er bara mjög ánægður að vinna leikinn sem var mjög erfiður, enda mikil barátta. Við vorum að spila við lið sem hefur ágæta bikarhefð og undirbjuggum okkur því vel. Heilt yfir má segja að þetta hafi verið fínn sigur,“ sagði Ólafur eftir leik.

Aðstæður í Grafarvogi voru nokkuð erfiðar. Völlurinn var ekki í sínu besta ástandi og kaldur vindur gerði leikmönnum erfitt fyrir. Ólafur var sammála því að leikurinn hefði ekki verið sérlega mikið fyrir augað.

„Stundum þarf bara að beita þeim aðferðum sem virka í svona aðstæðum og það gerðum við í kvöld. Völlurinn og aðrar aðstæður bjóða ekki upp á mikinn fótbolta og menn þurfa þess vegna bara að berjast meira. Við vorum ekki merkilegir í fyrri hálfleik, ég get viðurkennt það. Hins vegar vorum við grimmari í seinni hálfleik, enda höfðum við eitthvað til að verja.“

Ólafur notaði vel þekkta og viðurkennda aðferð sem oftast er kennd við Arsene Wenger, knattspyrnustjóra Arsenal, þegar hann var spurður um vítaspyrnudóminn.

„Ég sá þetta ekki.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert