Úrvalsdeildarliðin áfram

Óttar Magnús Karlsson skoraði tvö fyrir Víking.
Óttar Magnús Karlsson skoraði tvö fyrir Víking. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

ÍA, Víkingur R. og Þróttur R. eru öll komin í 16-liða úrslit Borgunarbikars karla í knattspyrnu eftir að hafa unnið sína leiki í kvöld. KR og Selfoss eru á leið í framlengingu á Alvogen-vellinum.

Þróttur R. sigraði Völsung 3:1 í Laugardalnum. Brynjar Jónasson kom Þrótturum yfir á 10. mínútu áður en hann bætti við öðru á 62. mínútu. Dean Morgan gerði svo þriðja mark heimamanna og gátu þeir því andað léttar.

Eyþór Traustason minnkaði muninn fimmtán mínútum fyrir leikslok en lengra komst Völsungur ekki og er liðið því úr leik þetta árið.

Víkingur R. vann Hauka 2:1 á Ásvöllum. Hinn ungi og efnilegi Óttar Magnús Karlsson skoraði bæði mörk Víkings í fyrri hálfleik. Fyrra markið kom á 20. mínútu og það síðara á 31. mínútu. Aron Jóhannsson minnkaði muninn fyrir Hauka undir lok leiks, en lengra komust Haukar ekki og Víkingur því áfram.

ÍA vann svo KV 1:0. Þórður Þorsteinn Þórðarson skoraði eina marka Skagamanna á 5. mínútu en Albert Hafsteinsson gat bætt við öðru á 80. mínútu er liðið fékk vítaspyrnu en hann klúðraði henni. Lokatölur þó 1:0 fyrir ÍA sem flýtur áfram í 16-liða úrslitin.

Víðir í Garði er þá eina liðið í 3. deildinni sem verður í 16-liða úrslitum. Víðir vann Sindra 2:0 eftir tvö mörk í framlengingu. Helgi Þór Jónsson og Aleksandar Stojkovic skoruðu mörkin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert