England má gæta sín á Hannesi

Hannes Þór Halldórsson fagnar.
Hannes Þór Halldórsson fagnar. AFP

Norska knattspyrnufélagið Bodø/Glimt hefur mikinn áhuga á að halda íslenska landsliðsmarkverðinum Hannesi Þór Halldórssyni í sínum röðum en þjálfarinn Åsmund Bjørkan staðfesti það eftir frækilega frammistöðu Hannesar í bikarsigri liðsins gegn Haugesund í gærkvöld.

„Ef Englendingar mæta Íslandi í vítaspyrnukeppni á EM verða þeir að gæta sín á þessum manni," sagði Bjørkan um Hannes eftir leikinn í gærkvöld en Hannes kom þá liði sínu í sextán liða úrslit með því að verja tvívegis í vítaspyrnukeppninni eftir 3:3 jafntefli liðanna.

Hannes er í láni hjá Bodø/Glimt fram í júlí en þá á hann að snúa aftur til NEC Nijmegen í Hollandi.

„Það er engin spurning að við viljum halda honum í okkar röðum. Við eigum eftir að setjast niður með Hannesi og sjá hverjir möguleikarnir eru," sagði Bjørkan við bodonu.no.

„Ég á eitt ár eftir af samningi mínum í Hollandi og verð að ráðgast við mitt félag. En norski fótboltinn er mjög góður kostur og Glimt verður alltaf valkostur hjá mér," sagði Hannes við bodonu.no.

„Upphaflega planið var að ég myndi hjálpa Glimt fyrri hluta tímabilsins og um leið koma mér í gott stand fyrir EM. Nú er þetta nokkurn veginn í höfn og svo verðum við að skoða hver staðan er að keppninni lokinni," sagði Hannes.

„Ég var eiginlega pirraður yfir því að verja ekki fleiri vítaspyrnur, áður en kom að þeirri sem réð úrslitum. Þegar ég fann fyrir boltanum hvarf hins vegar allur pirringur og ég gat fagnað. Alla markmenn dreymir um að ráða úrslitum í vítaspyrnukeppni," sagði Hannes enn fremur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert