Kolbeinn með ef það er einhver von um að hann spili

Kolbeinn Sigþórsson og Aron Einar Gunnarsson skokka á æfingu landsliðsins.
Kolbeinn Sigþórsson og Aron Einar Gunnarsson skokka á æfingu landsliðsins. mbl.is/Styrmir Kári

Aron Einar Gunnarsson og Gylfi Þór Sigurðsson geta nú tekið fullan þátt í æfingum knattspyrnulandsliðsins í aðdraganda EM í Frakklandi, en Kolbeinn Sigþórsson glímir við hnémeiðsli.

Íslenska liðið er á æfingu núna á Laugardalsvelli. Mbl.is ræddi við Lars Lagerbäck landsliðsþjálfara fyrir æfinguna og spurði hann út í stöðuna á þessum þremur lykilleikmönnum:

„Aron virðist ekki eiga í neinum vandræðum og er nánast farinn að æfa af fullum krafti, svo það er ekkert vafamál varðandi hann. Kolli er bjartsýnn, getur sífellt gert meira og meira, en er auðvitað enn þá svolítið spurningarmerki. Við bíðum núna og sjáum til fram að 31. maí þegar við skilum inn lokahópnum til UEFA, en ég er bjartsýnn hvað hann varðar og útlitið er gott,“ sagði Lagerbäck.

Svíinn tók undir að nú þegar 19 dagar séu í að Ísland mæti Portúgal í fyrsta leik sínum á EM sé slæmt að annar helsti markaskorari liðsins síðustu ár skuli vera meiddur.

„Þetta er auðvitað engin kjörstaða. Við erum með góða leikmenn í hópnum en hann sýndi í undankeppninni hvað hann er mikilvægur leikmaður fyrir okkur. Ég vona svo sannarlega að það gangi allt upp hjá honum en við erum líka með aðra leikmenn sem geta fyllt skarðið, eins og gengur og gerist í fótbolta,“ sagði Lagerbäck.

Vanalega myndi maður ekki taka áhættu

Hann sagði ljóst að ef það yrði mögulegt að Kolbeinn gæti spilað á mótinu, þó ekki væri nema að hluta, þá yrði hann valinn í hinn endanlega 23 manna leikmannahóp sem tilkynna þarf næsta þriðjudag:

„Já, það má orða það þannig,“ sagði Lagerbäck, og bætti við:

„Vanalega myndi maður ekki vilja taka neina áhættu varðandi leikmenn, en ef hnéð bregst ekki illa við því á næstu dögum að hefja æfingar og svona, þá veljum við hann þó að það verði ekki alveg víst hvernig hann muni höndla allt mótið, þegar svo stutt er á milli leikja. Ef greiningin 31. mars verður jákvæð þá veljum við hann að sjálfsögðu.“

Gylfi tók ekki þátt í síðustu leikjum Swansea í ensku úrvalsdeildinni og var gefin upp sú ástæða að hann væri meiddur í öxl og þyrfti meðferð við því. Lagerbäck sagði enga ástæðu til að hafa áhyggjur af Gylfa:

„Gylfi sagðist hafa verið að glíma við eitthvað smávægilegt vandamál í öxlinni en það hefur engin áhrif á hann varðandi æfingar eða leiki. Hann lítur eins vel út og hann gerir alltaf á æfingu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert