Ronaldo með óútreiknanlega tímasetningu

Ragnar Sigurðsson
Ragnar Sigurðsson Eggert Jóhannesson

„Ég er að sjálfsögðu brattur, það er ekkert annað hægt. Þetta mót er náttúrulega svo stórt að það mun sennilega koma einhver fiðringur í magann fyrir leikina, en það er hluti af því sem gerir þetta svona skemmtilegt, að finna fyrir stressi og gefa sig allan fyrir sjálfan sig, liðsfélagana og áhorfendurna, alla sem eru að horfa,“ sagði Ragnar Sigurðsson, leikmaður íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, við mbl.is í dag en Evrópumeistaramótið í knattspyrnu í París er á næsta leyti. 

Íslenska landsliðið var á æfingu á Laugardalsvelli í dag þegar mbl.is ræddi við Ragnar. Æfingar hófust á mánudaginn og eru 10 landsliðsmenn mættir til leiks.

„Það er ekkert sjúklega mikið hægt að gera þegar við erum bara tíu en við erum búnir að vera með fínar æfingar. Þeir ákváðu að breyta aðeins til í gær og fá U17-ára landsliðið til að æfa með okkur,“ sagði Ragnar sem var í fríi þegar U17-ára liðið kom í heimsókn.

Engin pressa í hjarta varnarinnar

Ragnar Sigurðsson og Kári Árnason voru í lykilhlutverki í hjarta varnar íslenska landsliðsins í undankeppninni og áttu margar góðar frammistöður gegn sterkum sóknarliðum eins og Hollandi. Ragnar segist ekki finna fyrir neinni sérstakri pressu í vörninni, því íslenska liðið verst fyrst og fremst sem heild.

„Að mínu mati byrjar þetta hjá sóknarmönnunum okkar. Við erum með tíu menn sem verjast og hjálpast að. Það byrjar alltaf hjá fremsta manni, síðan taka miðjumennirnir við, og síðan við í öftustu línu. Vinnan sem er unnin fyrir framan okkur hefur gert hlutina auðveldari fyrir okkur í öftustu línunni. Ég finn ekki fyrir neinni pressu í vörninni. Ég held að við munum halda áfram með sama anda og svo þarf það bara að koma í ljós hvernig okkur gengur. Það er náttúrulega allt annað að mæta þangað og spila þessa leiki en við höfum verið að gera,“ sagði Ragnar. 

Tekst á við besta leikmann Evrópu

Íslensku vörninni bíður afar erfitt verkefni í Frakklandi, Íslendingar eru í riðli með Portúgal og ætti landsliðsfyrirliðinn, Cristiano Ronaldo, að vera öllum kunnugur. Ronaldo er nánast óstöðvandi markaskorari og er án efa besti evrópski knattspyrnumaður síðustu ára. 

„Ég hef spilað á móti honum þrisvar áður þannig að það verður ekkert nýtt fyrir mig, en það er að sjálfsögðu ógeðslega gaman að spila á móti þeim bestu í heimi og sýna hvað maður getur á móti þeim,“ sagði Ragnar, spenntur.

„Það er mjög erfitt að spila á móti Ronaldo, hann er svo góður inni í vítateignum. Hann er með rosalega skrýtna tímasetningu í öllu sem hann gerir, þannig að það er erfitt að lesa hann. Svo er hann sterkur og fljótur þannig að það er erfitt að dekka hann. Það er þetta sem maður vill, spila á móti svona leikmönnum. Þess vegna er maður í þessu.“

Fínn riðill í fínu veðri

Íslenska landsliðið skipar F-riðilinn ásamt Portúgal, Austurríki og Ungverjalandi. Margir önduðu léttar þegar Ísland var dregið í F-riðilinn enda forðaðist liðið flest evrópsku stórveldin. Ragnar er tiltölulega bjartsýnn fyrir riðlinum og telur Ísland eiga fína möguleika. 

„Ég held að þetta sé mjög góður riðill fyrir okkur. Þetta eru þrjú góð lið og Portúgal auðvitað erfiðast en við höfum sýnt það og sannað að við getum unnið öll lið. Maður mun sennilega fara með alltof miklar væntingar inn í mótið, en ég tel að við getum unnið öll þessi lið en ég veit að við getum líka tapað. Þetta er bara spurning um að vera tilbúnir og að halda okkur við planið okkar. Það er það sem hefur virkað. “

Íslenska landsliðið mun leika tvo æfingaleiki, við Noreg í Osló 1. júní og Liechtenstein á Laugardalsvelli 6. júní, áður en haldið er í hitann í Frakklandi. Loftslagið þar er allt annað en hér heima og reiknar Ragnar með því að hitinn muni gera fyrstu æfingarnar erfiðar fyrir landsliðið.

„Við munum þurfa einhvern aðlögunartíma. Ég hef verið að spila í um 25 stiga hita síðustu leiki þannig að ég ætti nú að vera þokkalega vanur hitanum. Við eigum samt von á því að fyrstu æfingarnar úti í hitanum verði erfiðar, en þetta venst eftir 2-3 daga.“

Ragnar er eins og áður sagði brattur, en eins og allir meðlimir íslenska landsliðshópsins vill hann eiga eins gott mót og mögulegt er. Íslenska ævintýrinu á ekki að ljúka eftir þrjá leiki í F-riðlinum.

„Sama hvað gerist verður þetta náttúrulega ævintýri, en maður getur auðvitað farið vonsvikinn heim ef við drullum upp á bak. Við höfum þó alla möguleika til að fara þangað og standa okkur vel.“

Lítilmagninn í Rússlandi

Ævintýri Leicester City var ekki eina knattspyrnuævintýrið á síðasta tímabili, þótt það hafi átt besta endann. Rússneska liðið Rostov, sem rétt tókst að bjarga sér frá falli tímabilið 2014-2015, barðist við CSKA Moskvu um toppsætið í rússnesku úrvalsdeildinni fram að lokaumferð, en CSKA stóð uppi sem sigurvegari að lokum. Ragnar Sigurðsson leikur fyrir Krasnodar í rússnesku úrvalsdeildinni og hefur því fylgst grannt með málunum.

„Rostov hafa gert þetta nokkrum sinnum, byrjað tímabilið af þvílíkum krafti en fjarað út á seinni hlutanum. Þeim tókst bara að halda þessu gangandi á þessu tímabili þar til um fjórar umferðir voru eftir. Þá náði CSKA toppsætinu og þeir sleppa því ekki þegar þeir fá það,“ sagði Ragnar. Hann telur að íslenska landsliðið geti lært nokkurt af bæði Rostov og Leicester, en að það sé mikilvægast að Ísland haldi sig við sitt kerfi.

„Við erum búnir að spila okkar leik í fjögur ár, með sama kerfi. Augljóslega má skoða lið eins og Rostov og Leicester sem að ná ótrúlegum árangri og reyna að skoða það sem þau hafa verið að gera, en það er ekkert sem við höfum gert til þessa.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert