„Þetta var gott fyrir hjartað“

Jóhann fylgist með samherja sínum, Veigari Páli Gunnarssyni, leika boltanum …
Jóhann fylgist með samherja sínum, Veigari Páli Gunnarssyni, leika boltanum i kvöld. mbl.is/Eggert

Hægri bakvörðurinn Jóhann Laxdal skalf nokkuð í rigningunni í Garðabænum þegar blaðamaður tók hann tali eftir leik Stjörnunnar og Víkings frá Ólafsvík. Stjarnan hafði betur, 9:8, eftir vítaspyrnukeppni en Jóhann skoraði úr síðasta víti Garðbæinga.

„Þetta var karakter. Við komum alltaf til baka, saman sem lið. Það skiptir ekki máli hver kemur inn á og það allt. Við berjumst allir saman,“ sagði Jóhann við mbl.is eftir leikinn en varamaðurinn Guðjón Baldvinsson tryggði Stjörnunni framlengingu þegar hann jafnaði metin í 2:2 á 88. mínútu.

„Við settum smáþrýsting á þá í lokin en þeir breikuðu vel á okkur þegar þeir gátu. Við reyndum að vera agaðir og þurftum að vera það til að brjóta þá niður,“ bætti Jóhann við en honum þótti ekki leiðinlegt að skora úrslitamarkið:

„Ég er aldrei planaður sem einhver vítaskytta. Ég þurfti hins vegar aðeins að bæta upp fyrir 2010-klúðrið gegn Ólafsvík í bikarnum en þar klikkaði ég á víti. Þetta var því gott fyrir hjartað,“ sagði bakvörðurinn knái.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert